Það má segja að minnið hafi þarna brugðist frambjóðandanum sem einmitt var forsætisráðherra þegar lög um Kárahnjúkavirkjun voru samþykkt á Alþingi árið 2002. Þá var Vigdís nefnilega ekki forseti heldur hafði Ólafur Ragnar Grímsson haft lyklavöldin á Bessastöðum síðan árið 1996, eða í 6 ár. Árin 16 á undan hafði Vigdís setið á Bessastöðum en lög um Kárahnjúkavirkjun komu ekki inn á hennar borð.
Davíð vísaði í Kárahnjúkavirkjun þegar hann var spurður út í 26. grein stjórnarskrárinnar og var beðinn um að tiltaka ákveðinn fjölda undirskrifta kosningabærra manna sem myndu skora á hann að vísa lögum í þjóðaratkvæði. Davíð sagði að enga reglu um undirskriftir væri að finna í stjórnarskránni heldur væri þetta aðferð sem Ólafur Ragnar Grímsson fann upp.
Hann var þá spurður hvort að 26. greinin væri bara háð mati forsetans og undirskriftir skipti ekki máli. Davíð sagði undirskriftirnar nýjan hluta gagnvart þessari grein og þær hafi aldrei verið ræddar.
„Undirskriftirnar eru alveg nýr hluti gagnvart þessari 26. grein. Þær voru aldrei ræddar, ekki í neinum fræðiritum að þær skiptu máli og ég man ekki til þess að Vigdís Finnbogadóttir varðandi Kárahnjúka hafi tekið endilega mið af þeim. Hún tók mið af öðrum þáttum sem ég get nú ekki farið út í núna,“ sagði Davíð.
Í spilaranum hér að ofan má sjá Davíð ræða þetta.
Vigdís hefði getað synjað Kárahjúkavirkjun, sagði Davíð. Sú lög komu reyndar til forseta 2002, 6 árum eftir að hún hætti. #forseti
— Þórður S. Júlíusson (@thordursnaer) May 26, 2016
ÓRG var #forseti þegar Kárahnjúkavirkjun var á dagskrá og DO forsætisráðherra. DO ekki með þetta á hreinu.
— Björg Sigurðardóttir (@bjorgksig) May 26, 2016