Handbolti

Kielce Evrópumeistari eftir rosalega endurkomu og vítakeppni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn Kielce fagna.
Leikmenn Kielce fagna. vísir/getty
Kielce er sigurvegari í Meistaradeild Evrópu eftir að liðið sigraði í úrslitaleiknum í dag eftir vítakastkeppni. Lokatölur 39-38.

Veszprém byrjaði af miklum krafti og var þremur mörkum yfir, 7-4, eftir þrettán mínútna leik. Kielce náði mest að minnka muninn í eitt mark, 13-12, en nær komust þeir ekki í fyrri hálfleik.

Ungversku meistararnir leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 17-13. Þeir gáfu ekki tommu eftir og voru komnir átta mörkum yfir þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, 24-16.

Aron Pálmarsson stýrði sóknarleik Veszprém af mikilli festu og sóknarleikur þeirra gekk eins og vel smurð vél framan af.

Flestir héldu að leiknum væri lokið eftir að Veszprém komst í 28-19, en þá komu níu mörk í röð frá Kielce og þeir jöfnuðu metin í 28-28.

Lygilegur kafli og Veszprém skoraði ekki í tólf og hálfa mínútu, en Laszlo Nagy braut loksins ísinn tveimur mínútum fyrir leikslok þegar hann kom Veszprém í 29-28.

Kielce virtist vera að klúðra málunum þegar Manuel Strlek klúðraði víti rúmri mínútu fyrir leikslok, en þeir fengu annað tækifæri og Krzysztof Lijewski jafnaði metin þremur sekúndum fyrir leikslok. 29-29 eftir venjulegan leiktíma.

Því þurfti að grípa til framlengingar. Ungverjarnir voru einu marki yfir eftir fyrri hálfleik framlengarinnar, 34-33, en Cristian Ugalde jafnaði fimm sekúndum fyrir leikslok, 34-34 og því þurfti að grípa til vítakastkeppni.

Gasper Marguc og Mirsad Tersic klúðruðu vítum fyrir Veszprém, en Ivan Cupic klúðraði fyrsta vítinu hjá Kielce. Aguinagalde tryggði svo Kielce sigur með því að skora úr síðasta vítinu.

Aron spilaði mjög mikið í leiknum, en hann skoraði að endingu sex mörk úr tíu skotum og átti nokkrar glæsilegar sendingar.

Þetta er fyrsti Evróputitill Kielce, en leikmenn Veszprém geta sjálfum sér um kennt hvernig þeir köstuðu þessum leik frá sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×