Heiðarnar á miðhluta Vestfjarða bjóða upp á eitthvert magnaðasta útsýni sem býðst hérlendis. Að vetrarlagi eru þær hins vegar ein versta samgönguhindrun vegfarenda.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir að nú sé nokkurnveginn búið að leggja fram lokatillögur um legu vegarins og verið að vinna að því að ganga frá því formlega í skýrslu. Síðan sé áformað að bjóða vegagerðina út í áföngum.
„Það eru fjárveitingar, sú fyrsta á næsta ári og síðan aftur 2018, til þess að hefja það verk,“ segir vegamálastjóri.
Vegurinn um Dynjandisheiði er 32 kílómetra langur, allur ómalbikaður og liggur hæst í 525 metra hæð. Að sögn Kristjáns Kristjánssonar, forstöðumanns hönnunarsviðs Vegagerðarinnar, er hugmyndin að nýr vegur fylgi í megindráttum svipaðri veglínu.
Þó er nú til skoðunar að gera stutt jarðgöng efst á heiðinni norður af gatnamótum Bíldudalsvegar, vestan Lónfells. Göngin yrðu 1,3 til 2,3 kílómetrar að lengd og myndu liggja í um fjögurhundruð metra hæð en tækju af snjóþyngsta og erfiðasta kaflann, að sögn Kristjáns.

„Og vonandi bara að það gangi eftir. Þannig að þá verður búið að tengja norður- og suðurfirðina með heilsársvegi og komin góð þjónusta þannig að það verði þá ekki nema 150 kílómetrar á milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar í staðinn fyrir þá 600 sem eru í dag yfir vetrartímann,“ segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri.
