Stjarnan hefur lánað tvo efnilega leikmenn til 1. deildarliðs Fjarðabyggðar. Þetta kemur fram á Fótbolti.net.
Leikmennirnir sem um ræðir eru þeir Sveinn Sigurður Jóhannesson og Jón Arnar Barðdal en þeir eru báðir fæddir árið 1995.
Sveinn Sigurður varði mark í sigri Stjörnunnar á Fylki í 1. umferð Pepsi-deildarinnar á mánudaginn og hélt hreinu. Jamaíski markvörðurinn Duwayne Kerr er hins vegar kominn til landsins en honum er ætlað að verja mark Garðbæinga í sumar.
Sjá einnig: Duwayne Kerr: Kynntist góðu íslensku fólki í Noregi
Jón Arnar hefur leikið níu leiki með Stjörnunni í Pepsi-deildinni og skorað eitt mark. Hann var lánaður til Þróttar seinni hluta síðasta tímabils og skoraði þá þrjú mörk í 10 leikjum og hjálpaði liðinu að komast upp í Pepsi-deildina.
Fjarðabyggð mætir Hugin frá Seyðisfirði í 1. umferð 1. deildarinnar í Fjarðabyggðarhöllinni á morgun.
