Viðskipti innlent

Lýsing á samgöngukerfinu ekkert annað en neyðaróp

Kristján Már Unnarsson skrifar
Samtök atvinnulífsins óttast stórkostlegt tjón á vegakerfinu verði ekki varið meira fé til viðhalds. Ekki sé hægt að kalla greinargerð innanríkisráðherra með samgönguáætlun annað en neyðaróp. 

Sameiginleg umsögn fimm samtaka undir hatti Samtaka atvinnulífsins um samgönguáætlun er ekki aðeins óvenju stórorð. Hún er einnig sérstök að því leyti að við lýsingu á ástandinu er eingöngu vitnað í greinargerð innanríkisráðherra til Alþingis.

„Þeir sérfræðingar sem fjalla um málið af hálfu hins opinbera fella þarna mjög harkalega dóma um ástandið í samgöngukerfinu, vegakerfinu og öðru viðhlýtandi,” segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í viðtali í fréttum Stöðvar 2. 

Þeir segi meðal annars að fjárveitingar nægi varla til að verja vegakerfið skemmdum, ástand slitlags hafi versnað undanfarin ár og standi engan veginn undir kröfum, yfir tvöþúsund kílómetrar af vegum með bundnu slitlagi uppfylli ekki veghönnunarreglur nýrra vega og mikil þörf sé á að endurnýja brýr. 

„Þegar athugasemdirnar með frumvarpinu eru lesnar þá auðvitað kemur manni ekkert annað orð í hug heldur en neyðaróp,” segir Almar.

Frá hringveginum í Berufirði. Þar er malarvegur ennþá hluti af þjóðvegi númer 1.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Fjárfestingar í samgönguinnviðum hafi frá hruni verið minni en eðlilegar afskriftir. 

“Það þýðir á mannamáli að þessir mikilvægu innviðir okkar eru í raun að rýrna. Og í krafti öflugrar ferðaþjónustu, sífellt vaxandi atvinnulífs, út um alla landsbyggð, sem þarf þá að tengja saman á milli landshluta, þá hljótum við að spyrja okkur þeirrar strategísku spurningar hvort við viljum ekki gera betur þarna. Því þetta er svona ákveðin lífæð fyrir atvinnulíf og aðra, skapar störf og annað, og við hljótum að vilja bregðast við,” segir framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×