- Sprengjur voru sprengdar á Zavantem flugvellinum og í lest við Maelbeek lestarstöðina í gærmorgun.
- Minnst 31 lét lífið. Þar af ellefu á flugvellinum og tuttugu í lestinni.
- Um 270 eru særðir og hefur þriggja daga þjóðarsorg verið lýst yfir.
- Bræðurnir Khalid og Ibrahim el-Bakraoui eru sagðir hafa sprengt sig í loft upp. Ibrahim á flugvellinum og Khalid í lestinni. Ekki er búið að bera kennsl á annan sprengjumanninn á flugvellinum.
- Bræðurnir fæddust báðir í Belgíu og eiga langan sakaferil að baki.
- Najim Laachraoui, sem talinn er vera sprengjugerðamaður hópsins, gengur enn laus. Hann var þriðji árásarmaðurinn á flugvellinum en flúði þegar sprengja hans sprakk ekki. Miðlar í Belgíu birtu í morgun fréttir um að hann hefði verið handtekinn en þær voru dregnar til baka.
- Íslamska ríkið hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum.
- Sprengjugerðarbúnaður fannst í íbúð í borginni og var þar mikið magn af sprengiefni, nöglum, skrúfum og fleira. Fáni ISIS fannst einnig þar.
- Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur varað Bandaríkjamenn við því að ferðast um Evrópu. Hryðjuverkasamtök skipuleggi að fremja frekari hryðjuverk í náinni framtíð.
- Umfangsmiklar aðgerðir lögreglu standa nú yfir í Belgíu og hafa leitir verið framkvæmdar víða.
Sjá einnig: Myndir frá árásunum í Brussel
Þeir þrír sem gerðu árásirnar á flugvellinum fóru þangað með leigubíl, en bílstjórinn gat bent lögreglunni á hvar hann tók þá upp í bíl sinn.
Frederic Van Leeuw segir að þar hafi lögreglan fundið fundið fartölvu Ibrahim el-Bakjraoui. Þar hafi hann skrifað að hann teldi lögregluna vera að leita að sér og að hann vildi ekki fara í fangelsi.

Tengjast árásunum í París
Lögreglan leitar nú að Najim Laachraoui, en hann er talinn hafa verið þriðji árásarmaðurinn á flugvellinum. Það hefur ekki verið staðfest af lögreglu, en fjölmiðlar ganga út frá því að svo sé.
Laachraoui er einnig talinn hafa gert sprengjur fyrir árásarmennina í París. Undanfarna daga hefur hann verið á flótta undan lögreglu, eftir að gert var áhlaup á íbúð sem hann var í ásamt Salah Abdeslam, sem tók þátt í árásunum í París.
Samkvæmt AFP fréttaveitunni tilheyra látnir og særðir um 40 þjóðum. Þeir komi frá Norður og Suður Ameríku, Asíu, Afríku og Evrópu. Þá særðust fjórir starfsmenn framkvæmdatjórnar ESB.