Forráðamenn Zaventem-flugvallarins í Brussel segja að flugvöllurinn verði ekki opnaður á ný fyrr en á þriðjudag. Rannsóknir á byggingu flugvallarins þar sem sprengjurnar voru sprengdar í hryðjuverkaárásunum í síðustu viku hafa leitt í ljós að byggingin er ekki jafn mikið skemmd og í fyrstu var talið.
Verkfræðingar hafa rannsakað brottfararsalinn eftir að rannsókn lögregluyfirvalda á vettvangi var lokið. Í ljós er komið að byggingin er nokkuð heilleg eftir sprengingarnar, þrátt fyrir augljósar skemmdir. Gæti flugvöllurinn opnað á ný á þriðjudaginn í næstu viku.
Verið er að athuga hvort hægt sé að útbúa tímabundna aðstöðu til þess að taka á móti farþegum en flugvöllurinn hefur verið lokaður frá því að hryðjuverkamenn létu til skarar skríða og sprengdu tvær sprengjur í brottfararsal flugvallarins.
Reiknað er með að hertar öryggisráðstafnir verði teknar í gagnið þegar flugvöllurinn opnar á nýjan leik en ekki hefur verið gefið út í hverju það muni felast.
Flugfélög sem fljúga til Brussel hafa í mörgum tilvikjum fært flug sín á nærliggjandi flugvelli í nágrannalöndum Belgíu auk þess sem að mikið álag er á Charleroi-flugvellinum sem er í um klukkustundar fjarlægð frá Brussel.
Flugvöllurinn í Brussel ekki jafn mikið skemmdur og talið var

Tengdar fréttir

Sprengingar á flugvelli og lestarstöð í Brussel
Samgöngukerfi borgarinnar hefur verið lokað og viðbúnaður settur í hæsta stig.

Abdeslam segist ekki hafa vitað af árásunum
Hefur snúist hugur og vill verða framseldur til Frakklands sem fyrst.

Búið að bera kennsl á þriðja manninn
Maðurinn var á lista Bandaríkjanna yfir menn sem líklegir eru til að fremja hryðjuverk. Nafn hans hefur ekki verið gefið út.

Hver eru viðbrögð utanríkisráðuneytisins þegar hryðjuverk eru framin?
Sérstakt neyðarteymi er strax ræst út og samfélagsmiðlar hjálpa mjög til við að afla uppýsinga um Íslendinga þegar hryðjuverkaárás er gerð.