Hælisleitandi sem hótaði að kveikja í sér við verkefnamiðstöð fyrir hælisleitendur að Arnarholti á Kjalarnesi sótti um hæli hér í janúar síðastliðnum og hefur Útlendingastofnun þegar afgreitt umsókn hans. Ástæðan fyrir hótun mannsins var óánægja hans með afgreiðslu mála hjá yfirvöldum.
Málsmeðferðin tók sex vikur að því er segir í tilkynningu sem stofnunin hefur sent frá sér en í henni kemur hvergi fram hvort að viðkomandi hafi fengið hæli hér á landi eða ekki. Í samtali við fréttastofu neitaði svo Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi stofnunarinnar, að gefa upp hverjar málalyktir hefðu verið.
Sjá einnig: Hótaði að kveikja í sér við verkefnamiðstöð fyrir hælisleitendur
Í tilkynningunni kemur fram að þegar hælisleitendur hóti „að skaða sjálfa sig eða sýna af sér sjálfskaðandi hegðun leggur Útlendingastofnun áherslu á að tryggja þeim viðeigandi aðstoð og ráðgjöf. Allt kapp er lagt á að veita aðstoð og liðsinni í samræmi við óskir og þarfir viðkomandi.“
Þá segir jafnframt að allt kapp sé lagt á að veita viðkomandi aðstoð og liðsinni í samræmi við óskir hans og þarfir.
