Það var lítið skorað í síðustu leikjum dagsins í A-deild Lengjubikars karla í fótbolta.
Í riðli 2 gerðu KA og Víkingur Ó. markalaust jafntefli. Ólsarar eru í 2. sæti riðilsins með fimm stig, einu meira en KA sem er í 3. sætinu.
Það var heldur ekkert skorað í leik Þórs og Leiknis R. í riðli 4. Þórsarar eru með fjögur stig í 3. sæti, þremur minna en Leiknismenn sem eru í sætinu fyrir ofan.
Fram og Huginn gerðu 1-1 jafntefli í riðli 1 en bæði liðin leika í 1. deild í sumar.
Huginn missti Stefán Ómar Magnússon út af með rautt spjald á lokamínútu fyrri hálfleiks og á 59. mínútu kom Ingólfur Sigurðsson Fram yfir. Leikmenn Hugins gáfust þó ekki upp og Friðjón Gunnlaugsson jafnaði metin af vítapunktinum þegar 19 mínútur voru til leiksloka.

