Jenna er þekktust fyrir Öddubækurnar sem seldust í yfir 60 þúsund eintökum. Hún stundaði nám við Kennaraskólann og nam einnig við Háskóla Íslands. Hún lét menntamál sig varða en hún stofnaði Hreiðarsskóla árið 1942 ásamt eiginmanni sínum, kenndi við Barnaskóla Akureyrar, Langholtsskóla og Barnaskóla Garðabæjar svo eitthvað sé nefnt.
Í þætti sem gerður var um hana á Stöð 2 síðustu jól kom fram að þrátt fyrir háan aldur skrifaði hún enn á hverjum degi og það sem meira er handskrifaði Jenna allan texta á löngum ferli sínum. „Ég hef aldrei lært á ritvél. Ég hef aldrei haft Facebook. Ég hef aldrei haft farsíma eða neitt sem gildir. Ég hef bara sjálfa mig og pennann minn. Penninn minn og ég,“ sagði Jenna í þættinum.
Hún fæddist 24. ágúst 1918 á Læk í Dýrafirði. Eiginmaður hennar var Hreiðar Stefánsson og eignuðust þau tvo syni. Hún komst í fréttirnar ásamt Áslaugu systur sinni sumarið 2014 en þá urðu þær systur langlífustu tvíburar Íslandssögunnar.
Sjá má þáttinn um Jennu í heild sinni í spilaranum.