Tónlist

Fyrsta tónleikaferðin sem aðalnúmerið um Bandaríkin

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Jökull vonast til að platan komi út í sumar.
Jökull vonast til að platan komi út í sumar. mynd/Kyle Reinford
Hljómsveitin Kaleo er um þessar mundir á leið í sína fyrstu tónleikaferð um Bandaríkin sem svokallað aðalnúmer. „Þetta er okkar fyrsti „headline“ túr um Bandaríkin sem er mjög spennandi, sérstaklega þar sem hann er að seljast upp hratt. Túrinn hefst 18. febrúar og er í ca. fjórar vikur,“ segir Jökull Júlíusson, söngvari og annar gítarleikara hljómsveitarinnar Kaleo. Þeir félagar verða með upphitunarhljómsveit á tónleikaferðalaginu sem heitir Firekid en sveitin sú er hjá sama plötufyrirtæki og Kaleo, Atlantic Records.

Hljómsveitin hefur gert út frá höfuðstað Texas-fylkis, Austin, í rúmt ár og hefur haft í nógu að snúast. Hún er um þessar mundir að leggja lokahönd á upptökur á sinni fyrstu plötu vestanhafs. „Upptökur eru búnar að ganga mjög vel. Við eyddum nánast öllum janúar í Nashville svo að við erum nýkomnir aftur til Texas í undirbúning fyrir næsta túr,“ segir Jökull.

Davíð Antonsson, trommuleikari Kaleo, og Jökull spekingslegir á svip.mynd/Kyle Reinford
Hann getur þó ekki sagt til um hvenær platan verður tilbúin að svo stöddu. „Hún verður vonandi til sem fyrst. Við erum að hefja mix-ferlið á einhverjum lögum svo við erum langt komnir en það er ómögulegt að segja nákvæmlega hvenær hún verður tilbúin. Við vonumst til að hún komi út í sumar. Við erum auðvitað að gefa út í fyrsta skipti með Atlantic Records svo að þeir stjórna svolítið ferðinni með útgáfutíma og markaðssetningu,“ útskýrir Jökull.

Það er hinn þrefaldi Grammy-verðlaunahafi Jacquire King sem stýrir upptökum á plötunni. „Hann er frábær í alla staði og samstarfið hefur gengið mjög vel.“

Lagið No Good, sem sveitin sendi frá sér á síðasta ári, rataði í nýjan bandarískan sjónvarpsþátt sem ber nafnið Vinyl. Þá var lagið Way Down We Go í tölvuleiknum vinsæla Fifa 16. Eru fleiri lög úr ykkar smiðju á leið í sjónvarp eða tölvuleiki á næstunni? „Það er alltaf eitthvað í gangi en það er aðallega útgáfufyrirtækið okkar ásamt umboðsskrifstofunni og plötufyrirtækinu sem er með puttana í þessu. Það er mikil eftirspurn, sérstaklega í ljósi þess að við höfum aðeins gefið út þrjú lög hérna úti enn sem komið er og maður hefur jafnvel verið beðinn um að semja lög fyrir kvikmyndir. Þetta snýst síðan um að velja hvað hentar og hvað ekki,“ segir Jökull.

Jökull Júlíusson ræðir málin í hljóðverinu Blackbird Studio í Nashville.mynd/Kyle Reinford
Kaleo stefnir á að gefa út nýtt lag í þessum mánuði eða þeim næsta. „Við erum að vonast eftir því að gefa út einhver myndbönd á næstunni og mögulega nýtt lag í þessum eða næsta mánuði.“

Sveitin gaf út myndband við lagið Way Down We Go sem tekið er ofan í Þríhnúkagíg í sumar en myndbandið hefur vakið mikla athygli. Á dögunum sendi sveitin svo frá sér annað myndband sem sýnir gerð myndbandsins í Þríhnúkagíg en það er í spilaranum hér að neðan. „Við höfum fengið gífurlega mikil viðbrögð við vídeóinu hérna úti rétt eins og laginu sem gengur mjög vel í útvarpi. Vídeóið á bak við tjöldin er einmitt skemmtilegt og sýnir hversu mikil vinna var á bak við gerð myndbandsins.“

Eins og fyrr segir er nóg fram undan hjá sveitinni og eftir túrinn tekur við tónleikahald á hinum ýmsu tónleikahátíðum. „Eftir túrinn fáum við um viku í Austin þar sem South By South West festivalið verður í gangi og svo förum við til Ástralíu beint í kjölfarið. Svo hefst festival-tímabilið fljótlega eftir það.“

Spurður út í hvort þeir félagar komi eitthvað til Íslands á næstunni hefur Jökull þetta að segja: „Þetta er góð spurning. Það þarf oft að berjast fyrir því að fá tíma til þess. Við erum gífurlega bókaðir allt þetta ár en ég er að vonast eftir því að við getum komið eitthvað í lok júní. Það er óvíst ennþá en eins og ég hef áður sagt þá er það varla í boði, fyrir mér, að missa alfarið af íslenska sumrinu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×