„Ég gæti trúað að það séu tuttugu aðilar sem eru til skoðunar vegna mála sem við teljum alvarleg,“ segir Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar, um bresti í ferðaþjónustu.
„Við höfum farið með eitt alvarlegt mál og kært til lögreglu og erum að skoða fleiri mál sem varða ýmis brot. Það tekur tíma að safna gögnum um hvert og eitt mál. Málið þarf að vera skothelt fari það til lögreglu.“

Önnur mál til skoðunar hjá verkalýðsfélaginu eru af ýmsum toga. „Við erum að skoða skráningar starfsmanna, mögulega svarta starfsemi og misneytingu á starfsfólki,“ segir Halldóra Sigríður og segir suma vinnuveitendur ekki meðvitaða um það þegar þeir brjóta lög en aðra endurtaka brot sín þrátt fyrir aðkomu félagsins. „Sumir hafa einbeittan brotavilja á meðan aðrir virðast ekki átta sig á því þegar þeir fara yfir strikið. Rekstur þeirra þenst ef til vill út og það þarf að segja þeim að það megi ekki vinna alla daga vikunnar, allan sólarhringinn. Við viljum nálgast þessi mál lausnamiðað.“
Á næstunni fer af stað sameinað átak ríkisskattstjóra, vinnueftirlitsins og ASÍ og er ætlunin að stilla saman krafta stofnana til þess að ná betur utan um það sem betur má fara í ferðaþjónustu. Halldóra Sigríður segir verkalýðsfélögin einnig þurfa að styrkja sig. „Félögin þyrftu að hafa eftirlitsaðila í föstu starfshlutfalli að fylgjast með þessu og ég kalla eftir samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar. Við fórum í samstarf með garðyrkjubændum vegna svipaðra mála og það hafði góð og mikil áhrif.“

„Þetta er ein alvarlegasta birtingarmynd undirboðs á vinnumarkaði. Við skimum þessa síðu reglulega og látum félög í viðkomandi byggðarlagi vita, þau ganga svo í málið,“ segir Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, og segir að reglulega hverfi auglýsingar hótela og gistiheimila af síðunni eftir slík afskipti verkalýðsfélaga. „Það er stór munur á sjálfboðavinnu fyrir góðgerðar- eða félagasamtök og fyrirtæki í efnahagslegri starfsemi,“ segir Drífa og tiltekur dæmi: „Það eru hvít svæði, grá svæði og svört svæði. Á svörtu svæði eru hótel og gistiheimili sem óska eftir sjálfboðaliðum.“

Dæmi um efnahagslega starfsemi þar sem gjarnan finnst fólk í ólaunaðri vinnu skv. athugun ASÍ er fyrst og fremst við ýmiss konar ferðaþjónustu, nánar tiltekið vinnu á kaffi- og veitingahúsum, á gistiheimilum og hótelum, hestaleigum og við hellaskoðanir auk ýmiss konar blandaðra starfa á sveitabýlum og/eða við bændagistingu.