Gunnar Heiðar Þorvaldsson, framherji ÍBV í Pepsi-deild karla í fótbolta, verður ekki með liðinu næstu fjóra mánuðina vegna meiðsla.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Eyjamönnum sem send var á fjölmiðla í morgun. Ljóst er að Gunnar Heiðar, sem sneri aftur heim úr atvinnumennsku síðasta sumar, missir af fyrstu umferðum Íslandsmótsins.
Gunnar Heiðar skoraði fjögur mörk í ellefu leikjum fyrir Eyjamenn á síðustu leiktíð, en hann kom heim úr ellefu ára dvöl í atvinnumennsku um mitt síðasta sumar.
ÍBV er nú þegar búið að styrkja framlínu sína með Dananum Mikkel Maigaard sem skoraði tvö glæsileg mörk í úrslitaleik Fótbolti.net-mótsins á móti KR í gærkvöldi.
Einnig kemur fram í fréttatilkynningu ÍBV að leit standi yfir að nýjum markverði þar sem Abel Dhaira verður ekkert með á komandi tímabili vegna veikinda.
Eyjamenn eru í viðræðum við markvörðinn Derby Carilla, landsliðsmarkvörð El Salvador, en hann er samlandi Pablo Punyed sem ÍBV fékk frá Stjörnunni í haust. ÍBV vonast til að vera búið að ganga frá markvarðarmálum sínum áður en Lengjubikarinn hefst um miðjan febrúar.
