KR er búið að ganga frá kaupum á danska sóknarmanninum Kennie Chopart og gera við hann þriggja ára samning.
Þetta kemur fram á heimasíðu KR í dag, en Chopart kemur til KR frá Fjölni þar sem hann spilaði seinni hluta síðustu leiktíðar í Pepsi-deild karla.
Chopart hefur verið sterklega orðaður við FH í vetur en nú er ljóst að hann spilar með vesturbæjarliðinu næstu þrjú sumrin.
Danski sóknarmaðurinn kom fyrst til landsins 2012 og spilaði með Stjörnunni í tvö sumur. Hann kom svo til Fjölnis um mitt tímabil í fyrra og sló algjörlega í gegn, en hann skoraði sex mörk í ellefu leikjum.
KR er nýlega búið að missa Sören Frederiksen og í dag verður Almarr Ormarsson kynntur sem nýr leikmaður KA. Á móti er KA búið að fá Finn Orra Margeirsson, Michael Præst og Indriða Sigurðsson.
Chopart hefur í heildina spilað 57 deildar- og bikarleiki fyrir Stjörnuna og Fjölni og skorað í þeim 16 mörk.
