Erlent

HBO vissi ekki af viðtali John Oliver við Edward Snowden

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Viðtalið var sýnt í þættinum Last Week Tonight sem sýndur er á HBO í apríl á síðasta ári.
Viðtalið var sýnt í þættinum Last Week Tonight sem sýndur er á HBO í apríl á síðasta ári.
Stjórnendur bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar HBO fengu ekki að vita af því að sjónvarpsmaðurinn John Oliver hefði farið til Moskvu til að taka viðtal við Edward Snowden fyrr en hann og teymi hans voru komin til baka til Bandaríkjanna með upptöku af viðtalinu. Frá þessu sagði Oliver í samtali við blaðamenn í New York í gær og Vox greinir frá.

Viðtalið var sýnt í þættinum Last Week Tonight á HBO í apríl á síðasta ári. 

Oliver sagðist hafa verið skelfingu lostinn yfir fundi sínum með Snowden, sem heldur til í Moskvu til að forðast saksókn í Bandaríkjunum vegna leka á leynigöngum frá NSA, þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna. Gögnin voru fyrst birt í Guardian árið 2013.

Gögnin sýndu fram á stórfellda njósnastarfsemi NSA sem beindist bæði að bandarískum ríkisborgurum og fólki frá öðrum löndum, þar á meðal Íslandi.

Oliver sagði að teymi sitt hefði eytt mörgum vikum í að fara yfir gögn um þær njósnaáætlanir sem Snowden ljóstraði upp um og að erfitt hafi verið að finna leið til að segja frá því á gamansaman hátt svo að fólk skildi um hvað málið snerist. Þáttur Olivers er blanda af gríni og fréttaskýringum en sjálfur er hann fyrst og fremst skemmtikraftur.

Stöð 2 sýnir þætti John Oliver og á 365 í samstarfi við HBO.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×