Fyrsti kjörfundur flokksins verður að venju haldinn í Iowa, núna á mánudaginn, 1. febrúar. Næst kemur röðin að New Hampshire, þar sem haldnar verða forkosningar þriðjudaginn 9. febrúar, og þar virðist Sanders með öruggt forskot. Hann mælist með nærri 54 prósent en Clinton tæplega 40 prósent.
Í herbúðum repúblikana virðist ekkert lát á sigurgöngu Donalds Trump, sem mælist með vel yfir 30 prósenta fylgi. Sá sem kemur næstur honum er Ted Cruz, sem er með um 26 prósent í Iowa og gæti því átt möguleika þar, en nær ekki nema 12 prósentum í New Hampshire.
Yfirburðir Trumps voru meira að segja áberandi í sjónvarpskappræðum repúblikana á fimmtudagskvöldið, þótt Trump sjálfur hafi ákveðið að mæta ekki til leiks og efna heldur til eigin samkomu á sama tíma.
„Það liggur við að ég sakni Trumps,“ sagði Jeb Bush í hálfkæringi, en hann mælist með innan við fimm prósenta fylgi í Iowa.

Fyrstu forkosningarnar og kjörfundirnir hafa oft ráðið úrslitum um framhaldið þannig að víða er úrslitanna frá Iowa á mánudaginn beðið með óþreyju. Rúmlega viku síðar ættu línur síðan að skýrast enn betur, þegar úrslit koma frá New Hampshire.
Síðar í febrúar kemur röðin svo að Nevada og Suður-Karólínu, en 1. mars er svo röðin komin að ofurþriðjudeginum svonefnda, þegar kosið er samtímis í fjórtán ríkjum Bandaríkjanna.
Eftir þann mikilvæga dag má búast við að verulega fækki í hópi frambjóðenda Repúblikanaflokksins, en þeir eru nú 11 talsins.
Formlega ganga flokkarnir tveir svo frá útnefningu forsetaefna sinna á landsþingum sínum, sem haldin verða í júlí. Forsetakosningar verða síðan þriðjudaginn 8. nóvember.