Innlent

Sprengjusveitin leysir þriggja ára ráðgátu

Ásgeir Erlendsson skrifar
Ráðgáta um tortryggilegan hlut sem fannst fyrir þremur árum í Eldey er nú loksins leyst. Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar hélt þangað fyrir skömmu og rannsakaði hlutinn.

 

Forsaga málsins er sú að í ársbyrjun 2013 fór Sigurður Harðarson, rafeindafræðingur, ásamt myndatökuliði Stöðvar 2 til Eldeyjar, einnar stærstu súlubyggðar í Evrópu, til að yfirfara myndavélar í eynni.

Meðan beðið var eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar kæmi til að sækja hópinn fannst torkennilegur hlutur.

 

„Menn töldu þetta vera sprengju. Þetta leit nú þannig út og lítur þannig út,“ segir Sigurður.

 

Haft var samband við sprengjudeild  Landhelgisgæslunnar sem komst loks til Eldeyjar í vikunni sem leið til að berja hlutinn augum.

Gæslan sendi svo myndir af hlutnum torkennilega í alþjóðlegan myndabanka og fékk svar til baka.

 

„Nú er komið í ljós að þetta er lofthylki úr flugvél sem hjálpaði þeim að taka á loft.“

 

Sigurður segir það vera ánægjulegt að vera loksins búinn að fá niðurstöðu í þetta sérstaka mál.

 

„Mönnum líður náttúrulega miklu betur að vita að þetta er ekki sprengja. Mér skilst að þær séu bara hættulegri eftir því sem þær eru eldri. Það

er þá minni hætta á að þeir sprengi þarna hornið af eyjunni, ekki má hún minnka.“

 

Egill Aðalsteinsson og Bjarni Þorgilsson tóku myndefnið í Eldey.

vísir/egill
vísir/egill
vísir/egill



Fleiri fréttir

Sjá meira


×