Ólafur Ólafsson, sölustjóri hjá Guide To Iceland sem tekur á móti ferðamönnum neðarlega á Laugaveginum, segir að stappað hafi verið fram úr dyrum dagana fram að áramótum.

Allur gangur sé á því hvort fólki kaupi ferðir í gegnum Guide To Iceland eða notist einfaldlega við ráðin og skipuleggi kvöldið sjálft.
„Svo til öll hótel voru uppbókuð yfir áramótin og í raun erfitt að finna hvað sem er. Það er klárlega aukning á milli ára en bara spurning hve mikil hún er,“ segir Ólafur.
Leiðsögumenn hafi verið uppbókaðir yfir áramótin og hreinlega brjálað að gera.

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Grayline, tekur undir með Ólafi að klárlega sé um aukningu að ræða á fjölda ferðamanna á milli ára.
Á milli 600 og 700 ferðamenn hafi bókað sig í ferð hjá Grayline á gamlárskvöld, langflestir í fyrrnefnda fimm tíma ferð sem kosti tíu þúsund krónur. Önnur fyrirtæki, svo sem Sterna og Reykjavík Excursions, bjóða upp á svipaðar ferðir. Því er ekki óvarlegt að áætla að fjöldi ferðamanna í skipulögðum brennuferðum hafi verið á annað eða þriðja þúsund.
Einnig var boðið upp á stakar brennuferðir og stakar flugeldaferðir. Þær hafi þó verið töluvert fámennari en fimm tíma ferðin. Líklega sé aukningin á milli ára 60-70 prósent í gamlársferðirnar.
Grayline fer með sitt fólk á brennu sem Breiðablik stendur fyrir í Kópavogi. Þar er aðkoman til fyrirmyndar að sögn Þóris og skipuleggjendur gera hvað þeir geti að greiða götu gesta sinna.
Að neðan má sjá flugeldasýningu Hjálparsveitar skáta í Kópavogi við brennuna á gamlárskvöld. Björn Elvar Sigmarsson tók upp myndbandið.
Þórir segir það ekki koma á óvart að fólk sæki í auknum mæli í ferðir til Íslands á þessum árstíma.
„Hingað er auðvelt að komast á þessum tíma, það eru góð tilboð í gangi og eitthvað um að vera. Fullt af fyrirtækjum bjóða upp á snjósleðaferðir, hellaferðir og fleira,“ segir Þórir. Hann merki mikla aukningu í fjölda ferðamanna frá Asíu.

Þórir segir fleiri hótel og veitingastaði hafa verið opna um áramót í ár en undanfarin ár. Erfiðara sé hins vegar um vik í kringum jólin og þar hjálpi íslensk löggjöf ekki til.
„Tæknilega séð er það lögbrot að þjónusta ferðamenn með mat á aðfangadagskvöld. Þetta hefur gleymst í umræðunni,“ segir Þórir en allt sé þó á uppleið.

