Ólafur vísar þar til aðsendrar greinar Hilmars, forstöðumanns Náttúruminjastofnunar Íslands, sem birtist í Fréttablaðinu í gær, þar sem hann segir að ráða þurfi bót á fráveitu skólps við Þingvallavatn. Þar sytri skólpvatn úr þróm út í umhverfið og í Þingvallavatn. Niturmagn aukist þannig í vatninu sem kunni að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir allt lífríki vatnsins og hrein- og tærleika þess. „Vísbendingar um þessa þróun í Þingvallavatni eru því miður nú þegar fyrir hendi,“ skrifaði Hilmar.
Hilmar lagði til að gestir sem heimsækja garðinn verði hvattir til að létta á sér heima, á hóteli eða í skipi áður en þeir mæta.
Ólafur segir málflutning Hilmars spilla ásýnd þjóðgarðsins.

Þjóðgarðsvörður bætir við að allt annað frárennsli í þjóðgarðinum sé keyrt í burtu sem kosti magar milljónir króna.
Ólafur segir þær upplýsingar sem Hilmar byggi grein sína á séu margra ára gamlar og ekkert til í þeim. „Hann hefur engar mælingar hjá sér og veit ekkert hversu mikið kemur inn eða fer út.“
Ólafur segir að þjóðgarðurinn hafi verið í forystu um að bæta frárennslismál við Þingvallavatn.
„Ekki bara hjá okkur heldur við allt vatnið. Við höfum hvatt til þess að það væri allt lagfært og haft forystu um að fá sveitarfélögin til að taka á þessum málum hjá sumarbústöðum.“
Ólafur segir tillögu Hilmars um að ferðamenn létti á sér fyrir komu í garðinn aulabrandara. „Maður segir ekki fólki að fara á klósettið áður en það fer í ferðalag. Hilmar er vísindamaður sem við höfum stutt mjög rækilega við bakið á og svona aulabrandarar um jafn alvarlegt mál eru mjög óviðeigandi,“ segir Ólafur að lokum.