Kona Jóhanns var jafnframt bitin en dóttir þeirra, sem svaf í næsta herbergi, slapp með skrekkinn.
Fyrir aftan veiðihúsið sem Jóhann svaf í er myndarlegur og skjólgóður trjálundur, sem líklega var gróðursettur fyrir tuttugu til þrjátíu árum. Slíkir trjálundir bjóða lúsmýinu upp á kjöraðstæður að mati Erlings Ólafssonar, skordýrafræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
„Mýið vill ekki vind, það vill lognið. Þú veist hvernig sumarhús eru í dag. Þú sérð þau ekki fyrir trjáumgjörð,“ segir Erling.
Hann telur að veðurskilyrði síðustu viku séu ástæða þess að lúsmýið blossaði upp með þessum hætti. Samspil suðvestanáttar og logns hafi valdið því að stór hluti fólks á suðvesturhorni landsins hafi orðið illa útleikinn af mýbiti.
„Ég hef grun um að þetta [mýið] sé búið að vera hér lengi án þess að það hafi uppgötvast. Þetta voru tímabundin skilyrði sem ekkert er víst að endurtaki sig nokkurn tímann aftur, ekki í þessum mæli.“
Svo virðist sem árásir lúsmýsins hafi verið afmörkuð plága sem Íslendingar eiga ekki að óttast það sem eftir lifir sumars. Tilkynningum um mýbit hefur fækkað mikið frá því að sprenging varð í þeim efnum um miðja síðustu viku.

Hann leggur til að gripið verði til róttækra aðgerða. „Sumarhúsaeigendur ættu bara að höggva niður háu trén í kring.“
Erling hefur haft samband við sérfræðinga ytra sem mögulega gætu greint tegund lúsmýsins. Þegar Fréttablaðið fór í prentun í gærkvöldi hafði hann ekki haft erindi sem erfiði en póstum hans til sérfræðinganna hefur ekki verið svarað.
Bit lúsmýsins valda óstjórnlegum kláða. Þeir sem orðið hafa fyrir barðinu á því ná að halda kláðanum niðri með kremáburði og ofnæmislyfjum.