Lára fetar nýjar slóðir á plötunni og vinnur meðal annars í fyrsta sinn með upptökustjóra og útsetjara en Stefán Örn Gunnlaugsson stýrði upptökunum og útsetningum. „Það var æðislegt að vinna með Stebba, það var líka komið að stjórnsömu hliðinni minni að víkja,“ segir Lára og hlær. „Þetta samstarf gekk mjög vel og það var alltaf frelsi til að prófa nýja hluti. Við eyddum miklum tíma saman í stúdíóinu og kölluðum svo í frábæran mannskap til að spila inn á plötuna.“
Lára syngur plötuna á íslensku og er platan sú fyrsta sem hún syngur alla á íslensku. „Textarnir fjalla mest um það hvað því fylgir að vera mennsk og samskipti. Þeir fjalla líka um náttúruna okkar og landið,“ segir Lára spurð út í yrkisefnin.
Þá er einnig hægt að tengja plötuna við femínisma. „Ég var að læra kynjafræði og jógafræði þegar ég var að semja plötuna þannig að það litar margt,“ bætir Lára við.
Hún ætlar ásamt hljómsveit að fagna útgáfu plötunnar með tónleikum í Fríkirkjunni í Reykjavík í kvöld og hefjast tónleikarnir klukkan 21.00. Þá kemur hún einnig fram á Græna hattinum á Akureyri annað kvöld og hefjast þeir tónleikar klukkan 22.00.