Ógæfusamasta drottning sögunnar Illugi Jökulsson skrifar 31. maí 2015 09:00 Anna drottning - hnarreist á góðum degi í æsku. Einhverjir kostir hljóta að vera við arfakónga; annars hefði það stjórnskipulag varla viðgengist svo lengi, og svo víða. Nú á dögum kunna þeir kostir að virðast vandséðir; það er eitthvað nánast súrrandi galið að skipa svo málum að æðstur valdamaður í hverju ríki verði sá sem slysast til að fæðast fyrstur tilteknu pari. Það er auðvitað engin leið að segja til um það fyrir fram að sá einstaklingur verði á nokkurn hátt hæfastur sinna jafnaldra til að stjórna ríki eða deila út örlögum millum samferðamanna sinna. Og auðvitað má nefna mörg fleiri dæmi um hvernig arfakóngskerfið komst í ógöngur: Habsborgaraættin er eitt þeirra, en sú familía réð ríkjum bókstaflega talað í mörg hundruð ár, mörgum ríkjum í Evrópu, og var allt lagt undir til að tryggja að ætterni réði erfðum, en í allri þeirri sögu er vart hægt að finna nokkurn einstakling sem var öllu meira en miðlungsmaður að hæfileikum og skynsemi, en skyldaleikaræktun ættarinnar leiddi hins vegar til þess að oft rataði í konungsstóla gjörsamlega óhæft fólk til stjórnarstarfa sakir gáfnaskorts eða annarra kvilla. En eitthvað jákvætt hlýtur þó sem sé að hafa verið við þetta fyrirkomulag, ef við trúum því að sagan hljóti alltaf að stefna svona meira og minna í nokkurn veginn rétta átt! Væntanlega hefur sá stöðugleiki sem arfakóngskerfið hefur (oftast) í för með sér verið nægjanlega mikils virði meðan samfélagið taldist „frumstætt“ og ekki á allra færi að fylgjast með og taka þátt í landsstjórninni. Og þá hefur sú stjórnsýsluþekking og reynsla sem safnaðist fyrir í konungsættum líka verið einhvers virði, og þetta hvorttveggja vegið upp á móti þeirri undarlegu tilfinningu sem hugsandi fólk í arfaríkjum hlýtur oft að hafa verið býsna þrúgað af – sem sé hve einkennilegt það væri að hafa raunverulegt hæfileikafólk við landstjórn og hvers konar sýslu yrði að sitja kurteislega hjá, meðan hálfgerðir idjótar rorruðu í hásætinu.Þjóðsagan um „bláa blóðið“ Til þess að treysta arfakónga í sessi og koma í veg fyrir að þeim yrði sópað út í hafsauga í hvert sinn sem einhver dulan klöngraðist yfir lík síns afdauða föður upp í hásæti, þá var stundum markviss og miskunnarlaus innræting um „blóðhelgi“ konungsætta og þjóðsagan um „bláa blóðið“ varð til. Og jafnvel skynsamasta fólk trúði því fyrirvaralaust að alls konar vanhæft lið hefði goðumlíkan rétt til að ríkja á grundvelli ætternis, en ekki hæfileika. Og til að tryggja það var gengið ansi langt í sumum familíum, og jafnvel lögð mikil ógæfa á einstaklinga af konungsættinni sjálfri, svo tryggja mætti viðganginn sem talinn var haldast í hendur við ætternið. Hér er eitt sorglegt dæmi. Mikið hafði gengið á á Bretlandi á 17. öld, aðalsmenn neituðu að láta völd sín af hendi til konungs og vaxandi borgarastétt var farin að gera sig gildandi með aukinni kaupmennsku Breta um víða veröld. Enska þingið varð raunveruleg valdastofnun og atti mjög kappi við kónga. Ekki bættu trúardeilur úr skák, því þótt mótmælendur hefðu mjög reynt að berja pápískuna niður skaut hún alltaf upp kollinum og þá ekki síst í konungsættinni sjálfri. Er af því löng og flókin saga, en þetta dugar hér: Árið 1688 var hinn kaþólski Jakob II kóngur hrakinn frá völdum af bandalagi sem forkólfar þingsins höfðu gert við prinsinn af Óraníu í Hollandi, Vilhjálm, sem vildi svo til að var bæði systursonur Jakobs og kvæntur Maríu dóttur hans og náfrænku sinni. María var góður mótmælandi og studdi uppreisnina gegn föður sínum, og nú settist hún í hásæti drottningar og Vilhjálmur varð kóngur henni til samlætis, enda af rétta fólkinu kominn þótt ekki væri það í þetta sinn í beinan karllegg. En Vilhjálmur III og María II – eins og þau kölluðust – áttu engin börn. María dó svo úr bólusótt aðeins 32ja ára 1694 og eftir það sat Vilhjálmur einn á konungsstóli þar til 1702 þegar hann var 51s árs. Þá datt hann af hestbaki, braut viðbein, fékk ígerð og lungnabólgu og dó. Þá lifði Anna prinsessa ein af börnum Jakobs IIs og varð hún nú drottning. Og það er hún sem óhætt er að segja að beri með rentu titilinn sem ég notaði í fyrirsögn: Ógæfusamasta drottning sögunnar, og þar komu ekki síst við sögu krafan um blóðerfingja fyrir ættina.Georg Danaprins gegndi sinni dapurlegu skyldu.Prins kveikir vissulega líf hjá drottningu Anna var gift Georg Danaprins, hann var sonur Friðriks IIIja konungs, þess sem Íslendingar sóru einveldiseið á Kópavogsfundi. Aldrei kom til mála að Georg fengi konungsnafn á Bretlandi þar eð hann var ekki af konungsættinni líkt og Vilhjálmur af Óraníu hafði verið. Georg var raunar hæglát sál og sóttist alls ekki eftir völdum af neinu tagi, hann var hæstánægður með að eyða tímanum í að setja saman skipamódel – og gera konu sinni börn, svo viðhalda mætti konungsfjölskyldunni. Og það gerði Georg svikalaust. Allar götur frá því þau giftust 1683 kveikti Georg hvern lífsneistann af öðrum í kviði Önnu konu sinnar og þeim mun fleiri eftir því sem betur varð ljóst að María systir hennar myndi engin börn eignast og framtíð konungsættarinnar kynni að velta á því hvort Önnu tækist að koma króga í heiminn. Alls varð Anna barnshafandi sautján sinnum á sextán árum, og þó grunar suma að tilfellin hafi verið fleiri en sum fóstrin hafi hún misst svo snemma á meðgöngu að þau hafi ekki öll verið skráð. Og að minnsta kosti tvisvar gekk hún með tvíbura, svo það var enginn smáræðis hópur sem Anna reyndi að koma í heiminn. En ógæfan sem hún bjó við var ekki einleikin. Fyrst fæddi Anna andvana dóttur en síðan komu í heiminn tvær heilbrigðar dætur með árs millibili, en þær dóu báðar úr bólusótt febrúar 1687 á fyrsta og öðru aldursári. Og urðu foreldrum sínum harmdauði, hvað sem leið framgangi konungsættarinnar. Fáeinum dögum áður en dæturnar dóu hafði Anna auk þess misst fóstur öðru sinni, og nú fyrst fóru hörmungarnar að knýja dyra. Næst missti hún fóstur á miðri meðgöngu en heill mánuður leið eftir að fóstrið dó þar til líkami hennar skilaði því frá sér. Þannig gekk þetta svo næstu árin; tvisvar komu fullvaxta börn í heiminn en lifðu aðeins fáeinar mínútur, annars þurfti hún að þola hvert fósturlátið af öðru. Aðeins ein undantekning var á. Árið 1689 fæddi Anna son sem lifði og var skírður Vilhjálmur og útnefndur hertogi af Gloster. Hann var að sjálfsögðu augnayndi móður sinnar en hún fékk ekki að annast hann í frumbernsku né hafa hann á brjósti; slíkt var álitið verk lægri stéttar kvenna.Vilhjálmur Bretaprins. Engum þótti hann fagur, ekki einu sinni móðurinni.Einn hann lifði En Vilhjálmur litli var viðkvæmt barn og síveikt, hann hafði til dæmis vatnshöfuð, sem þá var kallað, og var heldur seinn til þroska og máttlítill í fótum og víðar, svo þegar hann fór loks að ganga vildi hann láta styðja sig upp stiga. Slíkt var ekki talið nógu konunglegt, svo Georg faðir hans, sá mildi hæglætismaður, húðstrýkti fimm ára son sinn þangað til hann lærði að hollast væri að hann reyndi sjálfur að hökta upp stigana. Heilsa drengsins var alltaf slæm en stundum virtist hann þó ætla að braggast eitthvað og þegar hann var tæplega tíu ára skrifaði móðir hans að sonur hennar liti betur út en nokkru sinni fyrr: „Þá meina ég hraustlegri, því þótt ég elski hann afar heitt, þá get ég ekki stært mig af því að hann sé fallegur.“ Svo viðkvæm var heilsa litla prinsins að ekki þótti annað koma til mála en Anna héldi áfram að reyna að geta börn til að tryggja lúterskt konungdæmið, og það lenti ekki í klóm kaþólskra ættingja. Því var Anna einlægt ófrísk og mædd og segir sig sjálft að heilsan og hreystin létu mjög á sjá með árunum. Hún hafði verið hávaxin og hnarreist og ákveðin stúlka, en þegar þarna var komið þótti ekki sjón að sjá hana. Hún var skelfilega bólugrafin í andliti, endalaust kvalin af þvagsýrugikt og ýmsum fleiri kvillum sem ég kann ekki að nefna, var keyrð um í hjólastól af því fæturnir gáfu sig og gerðist gríðarlega feit. Þá var hún orðin hirðulaus um klæðaburð og hreinlæti, illþefjandi vessar seytluðu víða, hún þótti sem sé ekki mjög drottningarleg, hún Anna. En áfram hélt hún að reyna að gegna sinni skyldu og koma fleiri börnum í heiminn, því auðvitað var það ekkert annað en skyldurækni sem réð því að þau Georg gengu enn saman til verka eftir öll þessi ár og alla þessa ógæfu og allan þennan dauða. Bláa blóðið yrði að tryggja, og passa um leið að kaþólsk skyldmenni Önnu kæmust ekki í hásætið að henni látinni.Annus horribilis Árið 1700 var örlagaríkt. Í janúar fæddi Anna barn eftir sjö og hálfs mánaðar meðgöngu, þá vissu allir að þetta steinbarn hafði verið dáið í mánuð. Og í júlí dó Vilhjálmur litli sonur hennar, eini árangurinn af öllu þessu skelfilega amstri drottningar, hann var nýorðinn 11 ára. Eftir þetta reyndi Anna ekki að verða barnshafandi aftur. Eftir sautján fósturlát og fæðingar – að minnsta kosti – stóð hún uppi barnlaus. Tveimur árum seinna varð hún drottning en lét ráðgjafa sína og þingmenn að miklu leyti um að stjórn landsins. Þó sýndi hún alltaf furðu mikla röggsemi sem verulega reyndi á. 1707 dó Georg eiginmaður hennar. Þrátt fyrir alla ógæfuna og dauflyndi hans annars staðar en í rúminu, þá hafði hjónaband þeirra á sinn hátt verið farsælt og hún syrgði hann ákaflega. Engin hjón höfðu átt við annað eins barnaólán að stríða. Árið 1714 dó Anna. Hún var ekki nema 49 ára en gjörsamlega farin að heilsu og kröftum. Fjarskyldur ættingi í Þýskalandi var með bolabrögðum gerður að kóngi, Georg hét hann, mótmælandi, þá var gengið fram hjá 50 nánum ættingjum Önnu sem allir voru kaþólskir – þrátt fyrir allt réði trúin þá meiru en blóðið í það sinn. Flækjusaga Mest lesið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lífið Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Lífið Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Lífið Lést eftir að hafa fallið úr bíl á ferð Lífið Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Lífið Dagbók móður: „Það var eins og þeir sæju eitthvað sem ég sá ekki” Áskorun Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Menning Fleiri fréttir Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Sjáðu Sandler snúa aftur sem Happy Gilmore í nýrri kitlu Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lést eftir að hafa fallið úr bíl á ferð Brúðkaup ársins 2024 Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Króli trúlofaður Jólagjafir íslenskra vinnustaða Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Smakkaði skötu í fyrsta sinn undir eftirliti sérfræðinga Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Hafi ekki tekið þátt í herferð gegn Lively Einn frægasti krókódíll í heimi allur Myndaveisla: Rauð jól hjá Jökli í Kaleo „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Límdi fyrir munninn á öllum við borðið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Frægir fundu ástina 2024 „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Mest skreytta jólahúsið í Hveragerði Sjá meira
Einhverjir kostir hljóta að vera við arfakónga; annars hefði það stjórnskipulag varla viðgengist svo lengi, og svo víða. Nú á dögum kunna þeir kostir að virðast vandséðir; það er eitthvað nánast súrrandi galið að skipa svo málum að æðstur valdamaður í hverju ríki verði sá sem slysast til að fæðast fyrstur tilteknu pari. Það er auðvitað engin leið að segja til um það fyrir fram að sá einstaklingur verði á nokkurn hátt hæfastur sinna jafnaldra til að stjórna ríki eða deila út örlögum millum samferðamanna sinna. Og auðvitað má nefna mörg fleiri dæmi um hvernig arfakóngskerfið komst í ógöngur: Habsborgaraættin er eitt þeirra, en sú familía réð ríkjum bókstaflega talað í mörg hundruð ár, mörgum ríkjum í Evrópu, og var allt lagt undir til að tryggja að ætterni réði erfðum, en í allri þeirri sögu er vart hægt að finna nokkurn einstakling sem var öllu meira en miðlungsmaður að hæfileikum og skynsemi, en skyldaleikaræktun ættarinnar leiddi hins vegar til þess að oft rataði í konungsstóla gjörsamlega óhæft fólk til stjórnarstarfa sakir gáfnaskorts eða annarra kvilla. En eitthvað jákvætt hlýtur þó sem sé að hafa verið við þetta fyrirkomulag, ef við trúum því að sagan hljóti alltaf að stefna svona meira og minna í nokkurn veginn rétta átt! Væntanlega hefur sá stöðugleiki sem arfakóngskerfið hefur (oftast) í för með sér verið nægjanlega mikils virði meðan samfélagið taldist „frumstætt“ og ekki á allra færi að fylgjast með og taka þátt í landsstjórninni. Og þá hefur sú stjórnsýsluþekking og reynsla sem safnaðist fyrir í konungsættum líka verið einhvers virði, og þetta hvorttveggja vegið upp á móti þeirri undarlegu tilfinningu sem hugsandi fólk í arfaríkjum hlýtur oft að hafa verið býsna þrúgað af – sem sé hve einkennilegt það væri að hafa raunverulegt hæfileikafólk við landstjórn og hvers konar sýslu yrði að sitja kurteislega hjá, meðan hálfgerðir idjótar rorruðu í hásætinu.Þjóðsagan um „bláa blóðið“ Til þess að treysta arfakónga í sessi og koma í veg fyrir að þeim yrði sópað út í hafsauga í hvert sinn sem einhver dulan klöngraðist yfir lík síns afdauða föður upp í hásæti, þá var stundum markviss og miskunnarlaus innræting um „blóðhelgi“ konungsætta og þjóðsagan um „bláa blóðið“ varð til. Og jafnvel skynsamasta fólk trúði því fyrirvaralaust að alls konar vanhæft lið hefði goðumlíkan rétt til að ríkja á grundvelli ætternis, en ekki hæfileika. Og til að tryggja það var gengið ansi langt í sumum familíum, og jafnvel lögð mikil ógæfa á einstaklinga af konungsættinni sjálfri, svo tryggja mætti viðganginn sem talinn var haldast í hendur við ætternið. Hér er eitt sorglegt dæmi. Mikið hafði gengið á á Bretlandi á 17. öld, aðalsmenn neituðu að láta völd sín af hendi til konungs og vaxandi borgarastétt var farin að gera sig gildandi með aukinni kaupmennsku Breta um víða veröld. Enska þingið varð raunveruleg valdastofnun og atti mjög kappi við kónga. Ekki bættu trúardeilur úr skák, því þótt mótmælendur hefðu mjög reynt að berja pápískuna niður skaut hún alltaf upp kollinum og þá ekki síst í konungsættinni sjálfri. Er af því löng og flókin saga, en þetta dugar hér: Árið 1688 var hinn kaþólski Jakob II kóngur hrakinn frá völdum af bandalagi sem forkólfar þingsins höfðu gert við prinsinn af Óraníu í Hollandi, Vilhjálm, sem vildi svo til að var bæði systursonur Jakobs og kvæntur Maríu dóttur hans og náfrænku sinni. María var góður mótmælandi og studdi uppreisnina gegn föður sínum, og nú settist hún í hásæti drottningar og Vilhjálmur varð kóngur henni til samlætis, enda af rétta fólkinu kominn þótt ekki væri það í þetta sinn í beinan karllegg. En Vilhjálmur III og María II – eins og þau kölluðust – áttu engin börn. María dó svo úr bólusótt aðeins 32ja ára 1694 og eftir það sat Vilhjálmur einn á konungsstóli þar til 1702 þegar hann var 51s árs. Þá datt hann af hestbaki, braut viðbein, fékk ígerð og lungnabólgu og dó. Þá lifði Anna prinsessa ein af börnum Jakobs IIs og varð hún nú drottning. Og það er hún sem óhætt er að segja að beri með rentu titilinn sem ég notaði í fyrirsögn: Ógæfusamasta drottning sögunnar, og þar komu ekki síst við sögu krafan um blóðerfingja fyrir ættina.Georg Danaprins gegndi sinni dapurlegu skyldu.Prins kveikir vissulega líf hjá drottningu Anna var gift Georg Danaprins, hann var sonur Friðriks IIIja konungs, þess sem Íslendingar sóru einveldiseið á Kópavogsfundi. Aldrei kom til mála að Georg fengi konungsnafn á Bretlandi þar eð hann var ekki af konungsættinni líkt og Vilhjálmur af Óraníu hafði verið. Georg var raunar hæglát sál og sóttist alls ekki eftir völdum af neinu tagi, hann var hæstánægður með að eyða tímanum í að setja saman skipamódel – og gera konu sinni börn, svo viðhalda mætti konungsfjölskyldunni. Og það gerði Georg svikalaust. Allar götur frá því þau giftust 1683 kveikti Georg hvern lífsneistann af öðrum í kviði Önnu konu sinnar og þeim mun fleiri eftir því sem betur varð ljóst að María systir hennar myndi engin börn eignast og framtíð konungsættarinnar kynni að velta á því hvort Önnu tækist að koma króga í heiminn. Alls varð Anna barnshafandi sautján sinnum á sextán árum, og þó grunar suma að tilfellin hafi verið fleiri en sum fóstrin hafi hún misst svo snemma á meðgöngu að þau hafi ekki öll verið skráð. Og að minnsta kosti tvisvar gekk hún með tvíbura, svo það var enginn smáræðis hópur sem Anna reyndi að koma í heiminn. En ógæfan sem hún bjó við var ekki einleikin. Fyrst fæddi Anna andvana dóttur en síðan komu í heiminn tvær heilbrigðar dætur með árs millibili, en þær dóu báðar úr bólusótt febrúar 1687 á fyrsta og öðru aldursári. Og urðu foreldrum sínum harmdauði, hvað sem leið framgangi konungsættarinnar. Fáeinum dögum áður en dæturnar dóu hafði Anna auk þess misst fóstur öðru sinni, og nú fyrst fóru hörmungarnar að knýja dyra. Næst missti hún fóstur á miðri meðgöngu en heill mánuður leið eftir að fóstrið dó þar til líkami hennar skilaði því frá sér. Þannig gekk þetta svo næstu árin; tvisvar komu fullvaxta börn í heiminn en lifðu aðeins fáeinar mínútur, annars þurfti hún að þola hvert fósturlátið af öðru. Aðeins ein undantekning var á. Árið 1689 fæddi Anna son sem lifði og var skírður Vilhjálmur og útnefndur hertogi af Gloster. Hann var að sjálfsögðu augnayndi móður sinnar en hún fékk ekki að annast hann í frumbernsku né hafa hann á brjósti; slíkt var álitið verk lægri stéttar kvenna.Vilhjálmur Bretaprins. Engum þótti hann fagur, ekki einu sinni móðurinni.Einn hann lifði En Vilhjálmur litli var viðkvæmt barn og síveikt, hann hafði til dæmis vatnshöfuð, sem þá var kallað, og var heldur seinn til þroska og máttlítill í fótum og víðar, svo þegar hann fór loks að ganga vildi hann láta styðja sig upp stiga. Slíkt var ekki talið nógu konunglegt, svo Georg faðir hans, sá mildi hæglætismaður, húðstrýkti fimm ára son sinn þangað til hann lærði að hollast væri að hann reyndi sjálfur að hökta upp stigana. Heilsa drengsins var alltaf slæm en stundum virtist hann þó ætla að braggast eitthvað og þegar hann var tæplega tíu ára skrifaði móðir hans að sonur hennar liti betur út en nokkru sinni fyrr: „Þá meina ég hraustlegri, því þótt ég elski hann afar heitt, þá get ég ekki stært mig af því að hann sé fallegur.“ Svo viðkvæm var heilsa litla prinsins að ekki þótti annað koma til mála en Anna héldi áfram að reyna að geta börn til að tryggja lúterskt konungdæmið, og það lenti ekki í klóm kaþólskra ættingja. Því var Anna einlægt ófrísk og mædd og segir sig sjálft að heilsan og hreystin létu mjög á sjá með árunum. Hún hafði verið hávaxin og hnarreist og ákveðin stúlka, en þegar þarna var komið þótti ekki sjón að sjá hana. Hún var skelfilega bólugrafin í andliti, endalaust kvalin af þvagsýrugikt og ýmsum fleiri kvillum sem ég kann ekki að nefna, var keyrð um í hjólastól af því fæturnir gáfu sig og gerðist gríðarlega feit. Þá var hún orðin hirðulaus um klæðaburð og hreinlæti, illþefjandi vessar seytluðu víða, hún þótti sem sé ekki mjög drottningarleg, hún Anna. En áfram hélt hún að reyna að gegna sinni skyldu og koma fleiri börnum í heiminn, því auðvitað var það ekkert annað en skyldurækni sem réð því að þau Georg gengu enn saman til verka eftir öll þessi ár og alla þessa ógæfu og allan þennan dauða. Bláa blóðið yrði að tryggja, og passa um leið að kaþólsk skyldmenni Önnu kæmust ekki í hásætið að henni látinni.Annus horribilis Árið 1700 var örlagaríkt. Í janúar fæddi Anna barn eftir sjö og hálfs mánaðar meðgöngu, þá vissu allir að þetta steinbarn hafði verið dáið í mánuð. Og í júlí dó Vilhjálmur litli sonur hennar, eini árangurinn af öllu þessu skelfilega amstri drottningar, hann var nýorðinn 11 ára. Eftir þetta reyndi Anna ekki að verða barnshafandi aftur. Eftir sautján fósturlát og fæðingar – að minnsta kosti – stóð hún uppi barnlaus. Tveimur árum seinna varð hún drottning en lét ráðgjafa sína og þingmenn að miklu leyti um að stjórn landsins. Þó sýndi hún alltaf furðu mikla röggsemi sem verulega reyndi á. 1707 dó Georg eiginmaður hennar. Þrátt fyrir alla ógæfuna og dauflyndi hans annars staðar en í rúminu, þá hafði hjónaband þeirra á sinn hátt verið farsælt og hún syrgði hann ákaflega. Engin hjón höfðu átt við annað eins barnaólán að stríða. Árið 1714 dó Anna. Hún var ekki nema 49 ára en gjörsamlega farin að heilsu og kröftum. Fjarskyldur ættingi í Þýskalandi var með bolabrögðum gerður að kóngi, Georg hét hann, mótmælandi, þá var gengið fram hjá 50 nánum ættingjum Önnu sem allir voru kaþólskir – þrátt fyrir allt réði trúin þá meiru en blóðið í það sinn.
Flækjusaga Mest lesið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lífið Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Lífið Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Lífið Lést eftir að hafa fallið úr bíl á ferð Lífið Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Lífið Dagbók móður: „Það var eins og þeir sæju eitthvað sem ég sá ekki” Áskorun Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Menning Fleiri fréttir Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Sjáðu Sandler snúa aftur sem Happy Gilmore í nýrri kitlu Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lést eftir að hafa fallið úr bíl á ferð Brúðkaup ársins 2024 Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Króli trúlofaður Jólagjafir íslenskra vinnustaða Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Smakkaði skötu í fyrsta sinn undir eftirliti sérfræðinga Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Hafi ekki tekið þátt í herferð gegn Lively Einn frægasti krókódíll í heimi allur Myndaveisla: Rauð jól hjá Jökli í Kaleo „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Límdi fyrir munninn á öllum við borðið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Frægir fundu ástina 2024 „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Mest skreytta jólahúsið í Hveragerði Sjá meira