„Við bara ætlum að djamma af okkur rassgatið eins og þeir segja á góðri íslensku,“ segir Pálmi Gunnarsson tónlistarmaður léttur í lundu um Óskarshátíð sem blásið verður til á Háaloftinu í Vestmannaeyjum í kvöld.
„Þetta er djasshátíð til minningar um Óskar Þórarinsson, skipstjóra og djassgeggjara frá Vestmannaeyjum,“ segir hann um viðburðinn en Óskar lést 2. nóvember árið 2012 og var einn öflugasti stuðningsmaður djassins á Íslandi að sögn Pálma.
„Hann var einn af stofnendum Djassvakningar á Íslandi og öflugur bakhjarl djassins. Alveg frábær karakter og skemmtilegur maður.“
Pálmi segir því tímabært að heiðra minningu Óskars og blása til tónlistarveislu en á Óskarshátíðinni koma fram Ragnheiður Gröndal söngkona, Ari Bragi Kárason trompetleikari og hljómsveitin TUSK sem skipuð er þeim Pálma, Kjartani Valdemarssyni, Birgi Baldurssyni og Edvard Lárussyni.
Óskarshátíð ber upp á afmælishelgi Óskars og er Pálmi þrælspenntur fyrir viðburðinum.
„Við hlökkum mikið til. Það verður mjög gaman að fara til Eyja og búa til góða veislu,“ segir hann léttur í lund að lokum.
Óskarshátíðin hefst á Háaloftinu í Vestmannaeyjum klukkan 21.00 í kvöld.
