Hvað er í gangi? Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar 19. maí 2015 07:00 Þau sem fylgst hafa með stjórnmálum í einhvern tíma þekkja orðið umræðu um þingsköp og breytingu á þeim nokkuð vel. Svo virðist sem þingmenn séu allir sem einn sammála um að betur megi fara þegar kemur að þeim reglum sem þingið starfar eftir. Reyndar er það þannig að það skiptir máli hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu varðandi það hve mikla áherslu þeir leggja á málið, eða hvaða breytingar þeir vilja sjá verða að veruleika. En allir virðast þó vera sammála um að einhverju verði að breyta. Einn af vorboðunum sem alltaf má treysta á er að allt fer í hnút í þinginu, ásakanir um málþóf koma fram frá meirihlutanum og minnihlutinn kvartar yfir valdníðslu og slælegum undirbúningi. Það skiptir engu hvaða flokkar skipa stjórn eða stjórnarandstöðu; það er jafn tryggt og að sólin rís að morgni að þessi tími kemur í hvert sinn sem fer að styttast í þinglok. Og nú er hann runninn upp enn á ný. Að þessu sinni er staðan þó um margt nokkuð sérstök. Það á ekki bara við það mál sem nú fangar athygli þingmanna, rammaáætlun. Nógu sérstakt er það mál þó, ráðherra leggur til að einn virkjanakostur verði færður úr bið- í nýtingarflokk og þingnefnd bætir fjórum við. Forsætisráðherra dregur síðan einn til baka í miðri umræðunni, meðan fagráðherrann hlustar hlýðinn á. Nei, þetta er ekki það eina sérstaka. Mun athyglisverðara er sú staðreynd að nú situr ríkisstjórn með svo ríflegan þingmeirihluta að það þarf að leita aftur til þess tíma þegar Davíð Oddsson var forsætisráðherra til að finna annað eins. Og hvernig hefur stjórnin nýtt sér þennan meirihluta? Jú, með því að koma fáum málum til þingsins, þau eru seint á ferð og taka umtalsverðum breytingum eftir að í þingið er komið án þess að ráðherrar tali sérstaklega fyrir þeirri leið sem þeir þó hljóta að hafa talið þá réttustu þegar frumvörpin þeirra voru samin. Hvað er eiginlega í gangi? Í þættinum Umræðunni á Stöð 2 í gærkvöldi mátti heyra Einar K. Guðfinnsson, forseta Alþingis, nefna það að mál mættu koma fyrr fram. Það er ekki í fyrsta skiptið, hann hefur höggvið í þann knérunn í þingsetningar og -frestunarræðum í allan vetur. En ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, sem sitja í umboði Alþingis, virðast ekki hlusta á þingforsetann. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, var líka í Umræðunni í gær. Hún nefndi líka að mál mættu koma fyrr fram frá ráðherrum. Hún benti þó réttilega á að þetta væri ekki einungis gagnrýni á sitjandi ráðherra, sem sumir hverjir eru samflokksmenn hennar, heldur á ráðherra margra fyrri ríkisstjórna einnig. Svona hefur þetta alltaf verið, því miður. Það gengur hins vegar ekki lengur að velta sér upp úr því hvort eitthvað sé reglulegt, aðrir hafi sýnt af sér sömu hegðun áður og svona hafi þetta nú bara alltaf verið. Ef stjórnmálamönnum þessa lands er einhver alvara í því að bæta starfshætti þingsins þá er nóg komið af djúpvitrum orðum sem í raun engu skipta. Gerið þetta bara. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Alþingi Kolbeinn Óttarsson Proppé Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun
Þau sem fylgst hafa með stjórnmálum í einhvern tíma þekkja orðið umræðu um þingsköp og breytingu á þeim nokkuð vel. Svo virðist sem þingmenn séu allir sem einn sammála um að betur megi fara þegar kemur að þeim reglum sem þingið starfar eftir. Reyndar er það þannig að það skiptir máli hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu varðandi það hve mikla áherslu þeir leggja á málið, eða hvaða breytingar þeir vilja sjá verða að veruleika. En allir virðast þó vera sammála um að einhverju verði að breyta. Einn af vorboðunum sem alltaf má treysta á er að allt fer í hnút í þinginu, ásakanir um málþóf koma fram frá meirihlutanum og minnihlutinn kvartar yfir valdníðslu og slælegum undirbúningi. Það skiptir engu hvaða flokkar skipa stjórn eða stjórnarandstöðu; það er jafn tryggt og að sólin rís að morgni að þessi tími kemur í hvert sinn sem fer að styttast í þinglok. Og nú er hann runninn upp enn á ný. Að þessu sinni er staðan þó um margt nokkuð sérstök. Það á ekki bara við það mál sem nú fangar athygli þingmanna, rammaáætlun. Nógu sérstakt er það mál þó, ráðherra leggur til að einn virkjanakostur verði færður úr bið- í nýtingarflokk og þingnefnd bætir fjórum við. Forsætisráðherra dregur síðan einn til baka í miðri umræðunni, meðan fagráðherrann hlustar hlýðinn á. Nei, þetta er ekki það eina sérstaka. Mun athyglisverðara er sú staðreynd að nú situr ríkisstjórn með svo ríflegan þingmeirihluta að það þarf að leita aftur til þess tíma þegar Davíð Oddsson var forsætisráðherra til að finna annað eins. Og hvernig hefur stjórnin nýtt sér þennan meirihluta? Jú, með því að koma fáum málum til þingsins, þau eru seint á ferð og taka umtalsverðum breytingum eftir að í þingið er komið án þess að ráðherrar tali sérstaklega fyrir þeirri leið sem þeir þó hljóta að hafa talið þá réttustu þegar frumvörpin þeirra voru samin. Hvað er eiginlega í gangi? Í þættinum Umræðunni á Stöð 2 í gærkvöldi mátti heyra Einar K. Guðfinnsson, forseta Alþingis, nefna það að mál mættu koma fyrr fram. Það er ekki í fyrsta skiptið, hann hefur höggvið í þann knérunn í þingsetningar og -frestunarræðum í allan vetur. En ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, sem sitja í umboði Alþingis, virðast ekki hlusta á þingforsetann. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, var líka í Umræðunni í gær. Hún nefndi líka að mál mættu koma fyrr fram frá ráðherrum. Hún benti þó réttilega á að þetta væri ekki einungis gagnrýni á sitjandi ráðherra, sem sumir hverjir eru samflokksmenn hennar, heldur á ráðherra margra fyrri ríkisstjórna einnig. Svona hefur þetta alltaf verið, því miður. Það gengur hins vegar ekki lengur að velta sér upp úr því hvort eitthvað sé reglulegt, aðrir hafi sýnt af sér sömu hegðun áður og svona hafi þetta nú bara alltaf verið. Ef stjórnmálamönnum þessa lands er einhver alvara í því að bæta starfshætti þingsins þá er nóg komið af djúpvitrum orðum sem í raun engu skipta. Gerið þetta bara.