„Það eru rúm tvö ár síðan ég fór að hugsa um þetta. Ég hef mjög gaman af tónlist og þekkti marga tónlistarmenn frá því í gamla daga,“ segir Helgi um upprunann. Honum þótti vanta vefsíðu þar sem hægt væri að nálgast upplýsingar um íslenskar hljómsveitir og tónlistarmenn.
„Það voru mjög fáar sjálfstæðar heimasíður sem geyma upplýsingar um hljómsveitir og tónlistarmenn og fór ég því að hugsa að það væri gott að geta farið inn á grunn og fundið þar allt sem maður vill vita um hljómsveitir og tónlistarmenn. Ef einhver af okkar kynslóð gerir þetta ekki þá týnist þetta bara og svo er líka gaman að geta sýnt börnum og barnabörnunum hvað menn voru að gera í gamla daga. Það er gaman að geta sagt við þau, ég var poppari þegar ég var ungur,“ segir Helgi og hlær.

Hann sér fram á allavega 2 ára vinnu í viðbót við það að koma inn upplýsingum um tónlistarmenn og hljómsveitir á síðuna sína. „Þetta er nú bara hobbí hjá mér þannig að þetta tekur tíma.“
Eru menn ekkert að hafa samband og spyrja af hverju þeirra hljómsveit sé ekki komin á síðuna þína? „Menn hafa verið senda mér efni og hafa líka spurt af hverju er mín hljómsveit ekki á síðunni. Sumir hafa líka varla þorað að láta mann hafa efni, því sumar hljómsveitir spiluðu kannski bara í sínu bæjarfélagi og í kringum það og voru ekki að fá mikla athygli á landsvísu,“ útskýrir Helgi, „en í mínum augum er það alveg eins mikil verðmæti og þessar hljómsveitir sem maður þekkir hérna af suðurhorninu.“

Spurður út í sínar uppáhaldshljómsveitir segist Helgi halda mest upp á gömlu sveitirnar á borð við Hljóma, Trúbrot og Flowers. „Ég hefði viljað sjá meira útgefið efni frá þessum hljómsveitum,“ segir Helgi og bætir við: „Mig langar mikið til þess að fá gamlar upptökur frá hljómsveitum sem hafa aldrei verið gefnar út. Ég veit að það er til svo mikið af upptökum sem hafa aldrei litið dagsins ljós. Og hættan er að þessum verðmætum verði hent því fólk veit oft ekki hvað á að gera við þetta.“
Ásamt því að hafa upplýsingar um tónlistarmenn og hljómsveitir, þá er hann einnig með mikið tenglasafn á síðunni þar sem hægt er að nálgast ýmsar upplýsingar tengdar tónlistarheiminum.