Valur segir þá félagana hafa fylgst með flugvélinni fljúga yfir Leirvog og sýnst hún vera að æfa lendingar. Flugvöllurinn á Tungubökkum er einn kílómetra frá þeim stað þar sem vélin brotlenti klukkan hálf þrjú utan við Leirutanga.
Flugmaðurinn er nítján ára og lauk atvinnuflugmannsprófi í gær.

Valur segir óhug hafa slegið á hópinn við þessa sjón. Þeir hafi hringt í Neyðarlínuna og síðan hlaupið niður í fjöru.
Til að byrja með hafi enga hreyfingu verið að sjá. Loks hafi þeir séð til flugmannsins sem hafi öskrað.
„Hann klifraði upp á vélina og hélt enn áfram að öskra og blóta. Svo byrjaði hann bara að ganga í land með sjóinn upp að brjósti. Það fyrsta sem okkar datt í hug var að það væri einhver annar í vélinni en við náðum að kalla í hann þegar hann var kominn hálfa leið í land og fengum það svar að hann væri einn. Þá létti okkur mikið,“ segir Valur.

„Hann var aumur í hægri hendinni og blóðugur og með skrámur í framan. Annars virtist hann vera nokkuð heill,“ lýsir Valur. Síðar kom í ljós að flugmaðurinn var úr axlarlið.
„Hann var bara í sjokki og hafði mestar áhyggjur af því að vera búinn að eyðileggja flugvélina fyrir pabba sínum. Við náðum að róa hann niður og héldum í hendurnar á honum þar til sjúkrabíllinn kom,“ segir Valur sem kveður þá félagana hafa verið í sjokki enda logandi hræddir við að þetta væri miklu alvarlegra. „Það leit þannig út. Mér finnst bara ótrúlegt að maðurinn hafi lifað þetta af.“
Þegar slysið varð voru Valur og félagar að undirbúa að slá teighöggin á sautjánda teig. Eftir að sjúkrabíllinn var farinn með flugmanninn til aðhlynningar luku þeir golfhringnum.
„Við áttum tvær holur eftir en sautjánda brautin tók ansi langan tíma, við vorum klukkutíma að spila hana – með stoppinu. Þetta er einn óvenjulegasti hringur sem maður hefur nokkurn tíma spilað og ég vona að þeir verði ekki fleiri svona.“
