Íslenska landsliðið í fótbolta mætir Kasakstan í lok mánaðarins í mikilvægum leik í undankeppni EM 2016. Sölvi Geir Ottesen hefur verið fastamaður í landsliðshópnum í mörg ár og Viðar Örn Kjartansson komið inn á síðustu mánuðum eftir að hann fór að blómstra í Noregi.
Sparkspekingar velta sér nú sumir hverjir upp úr því hvort þeir verði valdir eftir að þeir fóru að spila í Kína eða hvort aðrir leikmenn verði teknir inn í hópinn.
„Ég sé ekki af hverju við ættum að vera að gefa eftir landsliðssæti með því að koma hingað. Kínverska deildin er hörkugóð. Hér eru alveg frábærir framherjar þannig að það verður allavega nóg að gera hjá mér,“ segir Sölvi Geir sem viðurkennir að hann verði ekki sáttur verði hann ekki í hópnum sem ferðast til Astana.
„Ég sé ekki neina ástæðu fyrir því að við verðum ekki valdir. Ég held áfram að gera mitt allra besta og verð mög svekktur verði ég ekki valinn í hópinn,“ segir Sölvi Geir.
