Ekki verður fengið stórt nafn til að spila sem hluti af All Tomorrow's Parties-hátíðinni á Íslandi í sumar, nokkrum dögum áður en hátíðin sjálf verður haldin á Ásbrú.
„Það er 100 prósent staðfest að við munum ekki gera aftur svoleiðis, þótt það hafi komið vel út,“ segir Tómas Young, framkvæmdastjóri ATP á Íslandi.
Í fyrra steig Neil Young á svið í Laugardalshöll skömmu fyrir hátíðina á Ásbrú en tónleikarnir voru engu að síður hluti af hátíðinni. „Þetta var bara of mikið í fyrra, að mínu mati. Við viljum ekki dreifa athyglinni frá aðalhátíðinni,“ segir Tómas.
Nýlega var greint frá því að Reykjanesbær yrði ekki lengur styrktaraðili hátíðarinnar. Tómas og félagar láta það ekki á sig fá. „Þetta er allt í vinnslu. Við erum að vinna í því að finna samstarfsaðila til að auðvelda okkur róðurinn fyrstu árin.“
Hann segir að hátíðin verði ekki minnkuð á neinn hátt þrátt fyrir að stór styrktaraðili sé ekki enn kominn í hús. „Það verður sama miðaverð og sama þjónusta í boði og sami fjöldi á svæðinu.“
Á meðal þeirra sem spila á ATP í sumar verða Iggy Pop og skoska poppsveitin Belle & Sebastian.
