Miklar líkur eru á því að stórstjarnan Justin Bieber muni dvelja nokkuð lengi hér á landi, í kringum fyrirhugaða tónleika hans 9. september á næsta ári. Þegar dagsetningar á tónleikaferðalagi hans eru skoðaðar kemur í ljós að langur tími líður frá tónleikum hans í Kórnum og þeirra næstu á eftir, sem verða í Berlín. Eftir þá tónleika tekur við tæplega tveggja mánaða keyrsla á milli evrópskra borga, þar sem sjaldan líða meira en tveir dagar á milli tónleika.
Bieber er þekktur fyrir að æfa af krafti fyrir tónleika sína. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur Kórinn verið leigður út í lengri tíma en þegar Justin Timberlake heimsótti Ísland í fyrra.
Sölupunktur
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er hluti af sölupunkti íslenskra tónleikahaldara, að tónlistarmenn geti staldrað lengur hér á landi en annarsstaðar og fengi góða aðstöðu til æfinga.
Þetta var meðal annars fyrirkomulagið þegar bandaríska stórsveitin Eagles kom hingað til landsins 2011. Þá gátu meðlimir sveitarinnar æft í Laugardalshöllinni í nokkra daga, þar sem tónleikarnir fóru svo fram. Þetta er eftirsóknarvert fyrir tónlistarmenn; að fá að æfa í höllum og leikvöngum, þar sem búið er að setja allar þær græjur upp sem nota á við tónleikahaldið. Erlendis getur reynst erfitt að bjóða upp á slíkt fyrirkomulag, sökum þess hve mikil ásókn er í tónleikahallir stórborganna.
Æfir vel
Bieber er þekktur fyrir að leggja mikið upp úr því að æfa vel fyrir tónleika sína. Tónleikaferðalagið á næsta ári, sem hann kallar Purpose World Tour, hefst í Bandaríkjunum í mars og mun Bieber ferðast um landið þvert og endilangt þar til í júlí. Þá tekur hann sér gott frí og byrjar svo aftur í Kópavogi í september.
Sjá einnig: Svona eru verðin og verðsvæðin
Þetta verður fyrsta tónleikaferðalag Bieber síðan 2013, en þá var hann á hinum svokallaða Believe-túr. Hann hófst í Glendale í Bandaríkjunum og æfði Bieber stíft í höllinni þar í borg fyrir tónleikana. Hann tók þrjú rennsli á tónleikunum, með öllu tilheyrandi, síðustu tvo sólarhringana áður en hann steig á svið fyrir framan áhorfendur. Eins og frægt er orðið kastaði stjarnan upp á þeim tónleikum, en kláraði þá af krafti. Sumir röktu magakveisuna til álags og því er líklegt að stjarnan taki sér meiri tíma í rennslin fyrir þetta tónleikaferðalag.
Kórinn bókaður
Ekki hefur tekist að staðfesta það fyllilega að Bieber ætli að dvelja hér á landi í góðan tíma fyrir og eftir tónleikana, en þó hefur heyrst sterkur orðrómur þess efnis. Talið er að Bieber muni nýta sér aðstöðuna í Kórnum og æfa vel áður en haldið verður til meginlands Evrópu. Bókanir á Kórnum renna stoðum undir það, en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er gert ráð fyrir lengri leigutíma á húsnæðinu en þegar Justin Timberlake kom hingað til lands. Dagsetningar á tónleikum Bieber í Evrópu og annáluð aðdáun hans á landinu rennir stoðum undir orðróminn. En eins og frægt er kom Bieber í heimsókn hingað til lands í sumar og tók upp myndband hér á landi.
Talið að Justin Bieber muni staldra við

Tengdar fréttir

Bieber staðfestir komu sína í Kórinn
Kanadíska poppgoðið blæs á efasemdaraddir um að hann sé ekki raunverulega að koma til landsins eins og íslenskir aðdáendur hafa látið í veðri vaka.

Justin Bieber með tónleika á Íslandi
Sena hefur tilkynnt um að Purpose Evrópu-tónleikatúrinn hjá Justin Bieber hefst þann 9. september í Kórnum í Kópavogi.

Svona fer miðasalan á Justin Bieber fram
Forsala aðdáendaklúbbs Justins Bieber fer fram á Tix.is klukkan fjögur á fimmtudaginn en rafræn biðröð hefst frá því klukkan 15.

Seldist upp á Justin á korteri
Justin Bieber fetar í fótspor nafna síns Justin Timberlake.