Breiðablik og Hammarby eiga enn í viðræðum um kantmanninn Höskuld Gunnlaugsson sem sló í gegn í Pepsi-deild karla síðastliðið sumar.
Höskuldur er 21 árs gamall og var til reynslu hjá sænska liðinu Hammarby í haust. Síðan þá hafa tilboð gengið á milli félaganna og eru viðræður enn í gangi.
„Það er verið að vinna þetta í rólegheitum og félögin eru enn að ræða þetta,“ sagði Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, við Vísi í dag.
„Það ber svo sem ekki mikið á milli í viðræðunum, þó svo að það getur enn brugðið til beggja vona. Við eigum von á því að fá eitthvað meira frá þeim í þessari viku.“
Arnór Smárason gekk til liðs við Hammarby fyrir skömmu en Eysteinn Pétur sagðist hafa fengið þau skilaboð frá sænska félaginu að það hefði engin áhrif á áhuga liðsins á Höskuldi.
Annar leikmaður Breiðabliks, Oliver Sigurjónsson, var á reynslu hjá Armenia Bielefeld í Þýskalandi fyrr í haust en þýska félagið hefur ekki enn sett sig í samband við Blika að sögn Eysteins Péturs.
Breiðablik hefur misst bæði Kristin Jónsson og Guðjón Pétur Lýðsson í haust en sömdu aftur við Jonathan Glenn auk þess sem að Guðmundur Atli Steinþórsson kom frá HK. Þá er ljóst að leikmenn sem voru í láni hjá öðrum félögum í fyrra, líkt og Gunnlaugur Hlynur Birgisson (Víkingi Ólafsvík) og Alfons Sampsted (Þór Akureyri), fái hlutverki í liði Blika í sumar.
Engu að síður eru Blikar að horfa til þess að styrkja sig enn frekar fyrir næsta keppnistímabil.
„Það er ekkert leyndarmál að við höfum áhuga á Ævari Inga [Jóhannessyni, leikmanni KA] svo dæmi sé tekið. Við eurm að leita að einum til þremur leikmönnum til viðbót,“ segir Eysteinn.
