Juventus vann sinn fimmta sigur í röð í ítölsku úrvalsdeildinni þegar meistararnir sóttu Lazio heim í kvöld. Lokatölur 0-2, Juventus í vil.
Juventus fór illa af stað í vetur en liðið hefur heldur betur tekið við sér og komið með 27 stig í 5. sæti, fjórum stigum á eftir toppliði Napoli.
Ítölsku meistararnir komust yfir strax á 7. mínútu þegar Santiago Gentiletti varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark.
Það var svo Paulo Dybala sem skoraði seinna mark Juventus á 32. mínútu. Argentínumaðurinn hefur verið heitur að undanförnu og skorað þrjú mörk í síðustu fjórum leikjum Juventus.
Lazio er í tómu tjóni en liðið hefur tapað fimm af síðustu sex leikjum sínum og er í 10. sæti deildarinnar með 19 stig.
Fimmti sigur Juventus í röð
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
