Tapið gegn Story er það eina á ferli á Gunnars og Stokkhólmur eini staðurinn sem víkingaför hans um heiminn hefur ekki verið sigursæl. Hann sigldi þess í stað vestur um haf síðast og barðist í fyrsta sinn í Las Vegas, á sjálfu MGM Grand-hótelinu og vann sigur.
Sigurför Gunnars hefur verið góð og mikil; jafnt á öllum ferlinum og einnig ef aðeins eru til teknir bardagarnir í UFC. Gunnar Nelson barðist fyrsta sinni í UFC í Nottingham í september 2012 og fór þá létt með Bandaríkjamanninn DaMarques Johnson.

Sjá einnig:Gunnar kýlir miklu fastar en Conor
Gunnar hélt sig á Englandi en barðist í höfuðborginni í sínum öðrum og þriðja UFC-bardaga. Brasilíumaðurinn Jorge Santiago var felldur fyrst í febrúar 2013, en hann er enn í dag eini maðurinn sem staðið hefur með Gunnari allar loturnar og tapað.
Rússinn Omari Akhmedov, strákur sem átti að vera mikil hetja í rússnesku bardagalistinni sambó, átti ekki möguleika í Gunna í næsta bardaga í London. Hann dansaði einhverja skáútgáfu af sambó við okkar mann í tæpa eina lotu og var svo svæfður.
Þá var komið að víkingaskipi Gunnars að sigla stutt yfir til Írlands þar sem hann er elskaður og dáður eins og fóstursonur þjóðarinnar. Bandaríkjamaðurinn Zak Cummings, stór og sterkur strákur sem vann svo næsta bardaga sinn eftir tap gegn Gunnari, lá þar í valnum.

Eftir frægðarför Gunnars til Las Vegas í júlí fær hann nú aftur tækifæri til að berjast á MGM Grand-hótelinu þar sem allir bestu bardagamenn sögunnar hafa sýnt listir sínar. Að þessu sinni mætir hann Brasilíumanninum Demian Maia, besta glímumanni sem Gunnar hefur mætt á ferlinum.
Sjá einnig:Minn stærsti bardagi á ferlinum
Gunnar sýndi gegn Brandon Thatch að hann er ekki lengur bara gólfglímumaður heldur firnasterkur standandi með mikinn höggþunga. Það þarf ekkert að vera að Maia fá tækifæri til að fara með Gunnari í gólfið. Vonandi liggur hann bara eftir og horfir upp á íslenska víkinginn vinna sjöunda sigurinn í UFC.

