Skýrsla um trúarlíf á Íslandi Þórlindur Kjartansson skrifar 20. nóvember 2015 07:00 Það er fagnaðarefni að Íslendingar skuli nú fá inn um bréfalúguna málgagnið Betra land, sem gefið er út af sjónvarpsstöðinni Omega. Ekki svo að skilja að í blaðinu sé eintómt fagnaðarerindi, þótt það sé tilgangur útgefandans. Það sem er fagnaðarefni við útgáfuna er innsýnin sem venjulegir Íslendingar fá inn í þann boðskap sem sumir jaðarhópar í hinni kristnu kirkju aðhyllast. Um leið gefur það okkur tækifæri til þess að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort okkur þætti eftirsóknarvert ef útlendingar drægju yfirgripsmiklar ályktanir um íslensku þjóðina út frá Betra landi. Myndum við vilja að staðalmyndin um Íslendinga mótaðist af því sem þar er sagt? Okkur finnst nefnilega flestum eðlilegt að telja að trúarlíf hljóti að vera einhver stærsti áhrifavaldur á líf einstaklinga og þjóða – jafnvel þótt við vitum að það gildi reyndar ekki í svo miklum mæli um okkur sjálf, eða alla sem við þekkjum persónulega. Okkur finnst oft að það hljóti samt sem áður að gilda um alla hina – sérstaklega um framandi útlendinga í skrýtnum löndum langt í burtu.Gerum tilraun Ef við gerum nú þá hugsunartilraun að útlendingur lengst úti í heimi vissi bara tvennt um Ísland. Í fyrsta lagi: Íslendingar er kristin þjóð. Í öðru lagi: Á Íslandi er kristnu málgagni dreift mánaðarlega inn um bréfalúgur allra landsmanna, og er það í raun eina kristna tímaritið sem allir Íslendingar hafa aðgang að. Ef þessi útlendingur, sem hefði eingöngu þennan takmarkaða glugga inn í íslenskt þjóðlíf, ætti að draga út frá Betra landi ályktanir um Ísland og skrifa um það skýrslu, þá gæti hún hljómað einhvern veginn svona:Skýrsla um íslensku þjóðina og trúarlíf hennarÁ Íslandi búa ríflega 330 þúsund manns. Að stærstum hluta eru Íslendingar kristnir, þótt þar sé að finna minnihlutahópa af öðrum trúarbrögðum og trúleysingja. Útbreiddasta tímarit landsins fjallar um trúmál og stjórnmálaleiðtogar þjóðarinnar vísa gjarnan til trúarinnar í tali sínu. Hið útbreidda tímarit ber heitið „Betra land“ og er til á öllum íslenskum heimilum. Það er gefið út af sjónvarpsstöðinni Omega sem er langútbreiddasta kristilega ljósvakaefnið á Íslandi, og í raun eina sjónvarpsefnið sem fjallar um trúmál. Út frá lestri tímaritsins má draga eftirfarandi ályktanir um íslensku þjóðina:1. Íslendingar trúa því að sumir prédikarar, einkum frægir og myndarlegir prédikarar, hafi yfirnáttúrulega getu til þess að lækna fólk af annars ólæknandi sjúkdómum. Í tímaritinu Betra land er iðulega að finna langar frásagnir af þess háttar lækningum.2. Meðal Íslendinga er prédikarinn William Branham mjög hafður í hávegum; nánast talinn heilagur. Í hinu víðlesna tímariti segir meðal annars að þegar Branham fæddist hafi „tákn og undur [farið] að gerast í kringum hann. Strax eftir fæðingu hans birtist yfirnáttúrulegt ljós yfir vöggu hans.“3. Íslendingar styðja einarðlega við Vladimír Pútín Rússlandsforseta og líta á sig sem bandamenn hans í heilögu stríði í Sýrlandi. Þeir líta til Pútíns sem eins konar krossfara, enda er hann í tímaritinu Betra land kallaður „nútíma krossfari“ og þar gefið í skyn að Rússland sé í hlutverki „síðasta verjanda Kristinnar trúar“.4. Stuðningur Íslendinga við Ísrael er afdráttarlaus og þeir telja til að mynda að sögulegt tilkall Ísraelsmanna til Jerúsalem megi rökstyðja með því að benda á að þegar hluti múslima beinir höfði sínu í átt til Mekka í bæn, þá snúi þeir um leið afturendanum til Jerúsalem.5. Þótt staða kvenna á Íslandi virðist á yfirborðinu góð miðað við flesta aðra staði, þá er þung trúarpólitísk undiralda gegn kvenréttindum eins og fram kemur í Betra landi. Þar er meðal annars greint frá því sem nefnt er „fimmta sýn“ prédikarans William Branham (sem er, eins og fram hefur komið, í miklu dálæti meðal Íslendinga). Þessi sýn er sögð lýsa „siðferðislegri hnignum á okkar tíma, einkum varðandi konur“. Branham rekur hnignunina til þess þegar konum var veittur kosningaréttur. „Síðan fóru þær að klippa hár sitt, sem táknaði að þær væru ekki lengur undirgefnar karlmanni en kröfðust þess í stað jafnréttis og forréttinda. Konur tóku að klæðast svipuðum fötum og karlmenn en síðan fóru þær að fækka fötum þar til ekkert var eftir nema pjatla í staðinn fyrir fíkjulauf.“ Þetta er sagt vera til marks um „útbreiðslu á öfuguggahætti og siðferðilegri upplausn um allan heim“. Auðvitað vitum við öll að þetta er alltsaman eintóm þvæla og við vitum að ályktanir um Íslendinga sem einhver drægi út frá Betra landi væru langt frá sannleikanum. Í slíkum ályktunum væri sannarlega miklu meira ógagn en gagn. Reyndar er boðskapurinn í tímaritinu Betra land svo víðsfjarri þeim skoðunum sem eru raunverulega ríkjandi á Íslandi að það kippir sér varla nokkur maður upp við það þótt þær séu bornar inn á hvert heimili. En fyrir þann sem hefði annars enga hugmynd um þjóðina þá er ekki ólíklegt að lesturinn ylli umtalsverðum heilabrotum – jafnvel áhyggjum. Við ættum sjálf að hafa þetta í huga þegar við reynum úr órafjarlægð og án nokkurra persónulegra samskipta að draga ályktanir um íbúa annarra landa, þar sem galin túlkun á trúarbrögðum er áberandi. Ætli það sé ekki öruggast í þeim efnum að ganga út frá því að fólk sé, þegar öllu er á botninn hvolft, alltaf fólk; en ekki staðalmyndir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þórlindur Kjartansson Mest lesið Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun Verðbólga í boði Viðreisnar Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Kennari í verkfalli Hólmfríður Þorgeirsdóttir Skoðun Neglum niður vextina Kristrún Frostadóttir Skoðun 16 ára aldurstakmark á samfélagsmiðlum Skúli Bragi Geirdal Skoðun Ísland 2074 Kjartan Magnússon Skoðun Er 0,145% bankaskattur virkilega nóg? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Úreltar og óréttmætar hvalveiðar Henry Alexander Henrysson Skoðun 200 þúsund til að búa í fatahengi LOL Derek T. Allen Skoðun Börn, ungmenni og geðheilsa Tómas Þór Þórðarson,Gunnar Örn Jóhannsson Skoðun
Það er fagnaðarefni að Íslendingar skuli nú fá inn um bréfalúguna málgagnið Betra land, sem gefið er út af sjónvarpsstöðinni Omega. Ekki svo að skilja að í blaðinu sé eintómt fagnaðarerindi, þótt það sé tilgangur útgefandans. Það sem er fagnaðarefni við útgáfuna er innsýnin sem venjulegir Íslendingar fá inn í þann boðskap sem sumir jaðarhópar í hinni kristnu kirkju aðhyllast. Um leið gefur það okkur tækifæri til þess að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort okkur þætti eftirsóknarvert ef útlendingar drægju yfirgripsmiklar ályktanir um íslensku þjóðina út frá Betra landi. Myndum við vilja að staðalmyndin um Íslendinga mótaðist af því sem þar er sagt? Okkur finnst nefnilega flestum eðlilegt að telja að trúarlíf hljóti að vera einhver stærsti áhrifavaldur á líf einstaklinga og þjóða – jafnvel þótt við vitum að það gildi reyndar ekki í svo miklum mæli um okkur sjálf, eða alla sem við þekkjum persónulega. Okkur finnst oft að það hljóti samt sem áður að gilda um alla hina – sérstaklega um framandi útlendinga í skrýtnum löndum langt í burtu.Gerum tilraun Ef við gerum nú þá hugsunartilraun að útlendingur lengst úti í heimi vissi bara tvennt um Ísland. Í fyrsta lagi: Íslendingar er kristin þjóð. Í öðru lagi: Á Íslandi er kristnu málgagni dreift mánaðarlega inn um bréfalúgur allra landsmanna, og er það í raun eina kristna tímaritið sem allir Íslendingar hafa aðgang að. Ef þessi útlendingur, sem hefði eingöngu þennan takmarkaða glugga inn í íslenskt þjóðlíf, ætti að draga út frá Betra landi ályktanir um Ísland og skrifa um það skýrslu, þá gæti hún hljómað einhvern veginn svona:Skýrsla um íslensku þjóðina og trúarlíf hennarÁ Íslandi búa ríflega 330 þúsund manns. Að stærstum hluta eru Íslendingar kristnir, þótt þar sé að finna minnihlutahópa af öðrum trúarbrögðum og trúleysingja. Útbreiddasta tímarit landsins fjallar um trúmál og stjórnmálaleiðtogar þjóðarinnar vísa gjarnan til trúarinnar í tali sínu. Hið útbreidda tímarit ber heitið „Betra land“ og er til á öllum íslenskum heimilum. Það er gefið út af sjónvarpsstöðinni Omega sem er langútbreiddasta kristilega ljósvakaefnið á Íslandi, og í raun eina sjónvarpsefnið sem fjallar um trúmál. Út frá lestri tímaritsins má draga eftirfarandi ályktanir um íslensku þjóðina:1. Íslendingar trúa því að sumir prédikarar, einkum frægir og myndarlegir prédikarar, hafi yfirnáttúrulega getu til þess að lækna fólk af annars ólæknandi sjúkdómum. Í tímaritinu Betra land er iðulega að finna langar frásagnir af þess háttar lækningum.2. Meðal Íslendinga er prédikarinn William Branham mjög hafður í hávegum; nánast talinn heilagur. Í hinu víðlesna tímariti segir meðal annars að þegar Branham fæddist hafi „tákn og undur [farið] að gerast í kringum hann. Strax eftir fæðingu hans birtist yfirnáttúrulegt ljós yfir vöggu hans.“3. Íslendingar styðja einarðlega við Vladimír Pútín Rússlandsforseta og líta á sig sem bandamenn hans í heilögu stríði í Sýrlandi. Þeir líta til Pútíns sem eins konar krossfara, enda er hann í tímaritinu Betra land kallaður „nútíma krossfari“ og þar gefið í skyn að Rússland sé í hlutverki „síðasta verjanda Kristinnar trúar“.4. Stuðningur Íslendinga við Ísrael er afdráttarlaus og þeir telja til að mynda að sögulegt tilkall Ísraelsmanna til Jerúsalem megi rökstyðja með því að benda á að þegar hluti múslima beinir höfði sínu í átt til Mekka í bæn, þá snúi þeir um leið afturendanum til Jerúsalem.5. Þótt staða kvenna á Íslandi virðist á yfirborðinu góð miðað við flesta aðra staði, þá er þung trúarpólitísk undiralda gegn kvenréttindum eins og fram kemur í Betra landi. Þar er meðal annars greint frá því sem nefnt er „fimmta sýn“ prédikarans William Branham (sem er, eins og fram hefur komið, í miklu dálæti meðal Íslendinga). Þessi sýn er sögð lýsa „siðferðislegri hnignum á okkar tíma, einkum varðandi konur“. Branham rekur hnignunina til þess þegar konum var veittur kosningaréttur. „Síðan fóru þær að klippa hár sitt, sem táknaði að þær væru ekki lengur undirgefnar karlmanni en kröfðust þess í stað jafnréttis og forréttinda. Konur tóku að klæðast svipuðum fötum og karlmenn en síðan fóru þær að fækka fötum þar til ekkert var eftir nema pjatla í staðinn fyrir fíkjulauf.“ Þetta er sagt vera til marks um „útbreiðslu á öfuguggahætti og siðferðilegri upplausn um allan heim“. Auðvitað vitum við öll að þetta er alltsaman eintóm þvæla og við vitum að ályktanir um Íslendinga sem einhver drægi út frá Betra landi væru langt frá sannleikanum. Í slíkum ályktunum væri sannarlega miklu meira ógagn en gagn. Reyndar er boðskapurinn í tímaritinu Betra land svo víðsfjarri þeim skoðunum sem eru raunverulega ríkjandi á Íslandi að það kippir sér varla nokkur maður upp við það þótt þær séu bornar inn á hvert heimili. En fyrir þann sem hefði annars enga hugmynd um þjóðina þá er ekki ólíklegt að lesturinn ylli umtalsverðum heilabrotum – jafnvel áhyggjum. Við ættum sjálf að hafa þetta í huga þegar við reynum úr órafjarlægð og án nokkurra persónulegra samskipta að draga ályktanir um íbúa annarra landa, þar sem galin túlkun á trúarbrögðum er áberandi. Ætli það sé ekki öruggast í þeim efnum að ganga út frá því að fólk sé, þegar öllu er á botninn hvolft, alltaf fólk; en ekki staðalmyndir.
Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun
Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun