Ekkert bendir til þess að hæsta viðbúnaðarstigi verði aflétt í Brussel, höfuðborg Belgíu, um helgina. Hæsta viðbúnaðarstigi var lýst yfir í borginni á föstudagskvöld og hafa yfirvöld í landinu varað við alvarlegri og yfirvofandi hryðjuverkaógn.
Næsthæsta viðbúnaðarstig var í borginni liðna viku í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París föstudaginn 13. nóvember. Viðbúnaðarstigið var hins vegar hækkað, meðal annars vegna gruns um að einn höfuðpaura árásanna í París, Salah Abdeslam, sé í Brussel.
Belgíska lögreglan hefur opnað fyrir sérstakt símanúmer fyrir almenning þar sem hægt er að koma upplýsingum á framfæri um hvar Abdeslam gæti verið að finna. Að því er fram kemur á vef Independent hafa belgískir fjölmiðlar birt fréttir af því síðustu daga hvar hann gæti verið en ekkert er staðfest í þeim efnum.
Gæti verið með sprengjubelti í fórum sínum
Tveir menn voru ákærðir í vikunni, grunaðir um að aðstoða Abdeslam við að komast frá París til Belgíu. Lögfræðingur annars þeirra sagði við belgíska sjónvarpsstöð í dag að skjólstæðingur sinn teldi Abdeslam mögulega eiga sprengjubelti.
„Samkvæmt skjólstæðingi mínum var Salah mjög órólegur og gæti verið tilbúinn til að sprengja sig í loft upp,“ sagði lögfræðingur Carine Couquelet. Þá sagði hún mennina þrjá varla hafa talað saman á leiðinni frá París til Brussel.
„Skjólstæðingur minn var mjög hræddur. Hann hefur ekki talað um nein vopn heldur um stóran jakka sem mögulega gæti verið sprengjubelti.“
Vopnaðir lögreglumenn og hermenn gengu um götur Brussel í dag. Þá var neðanjarðarlestarkerfið lokað sem og verslunarmiðstöðvar, kvikmyndahús, söfn og bílakjallarar. Knattspyrnuleikjum og tónleikum var aflýst, þar á meðal tónleikum íslensku hljómsveitarinnar Agent Fresco sem halda átti á laugardagskvöld.
Hæsta viðbúnaðarstigi ekki aflétt í Brussel: Einn höfuðpaur árásanna í París gengur enn laus

Tengdar fréttir

Hætt við tónleika Agent Fresco í Belgíu
Ástæðan er ótti við hryðjuverk í Brussel sem er á hæsta viðbúnaðarstigi

Leik Lokeren og Anderlecht frestað vegna ástandsins í Brussel
Leik Lokeren og Anderlecht hefur verið frestað í belgísku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en hann átti að fara fram í dag.

Hæsta viðbúnaðarstigi lýst yfir í Brussel
Yfirvofandi hryðjuverkahætta, segja stjórnvöld.