Tekið var á móti nýkrýndum Evrópumeisturum áhugamanna í MMA; Sunnu Rannveigu Davíðsdóttur og Bjarka Þór Pálssyni, með pomp og prakt þegar þau lentu í Leifsstöð í dag.
Þau stóðu uppi sem sigurvegarar í sínum flokkum á þessu fyrsta Evrópumóti áhugamanna sem fram fór á Englandi, en þar voru 130 keppendur frá 30 löndum mættir til leiks.
Eins og Sunna Rannveig greindi frá í viðtali við Fréttablaðið í morgun hefur það fyrir sið að hringja í ellefu ára gamla dóttur sína fyrir hvern einasta bardaga. Það var því tilfinningaþrungin stund þegar mæðgurnar voru sameinaðar á ný í Leifsstöð í dag.
„Þetta er alveg magnað, ég bjóst ekki við þessum móttökum. Að fá stelpuna mína í fangið er ótrúlegt. Það er gott að hafa svona gott fólk í kringum sig og finna stuðninginn,“ sagði Sunna Rannveig við íþróttadeild, en bjóst hún við að vinna mótið?
„Í rauninni ekki, ég ætlaði bara að gera mitt besta. Ég á mér stóra drauma. Þeir eru miklu stærri en þetta þannig þessi sigur er bara byrjunin. Ég stefni alla leið á stóra sviðið í Las Vegas,“ sagði Sunna Rannveig Davíðsdóttir.
Allt innslagið úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að ofan.
Sunna Rannveig með tárin í augunum: „Ótrúlegt að fá stelpuna mína í fangið“
Tengdar fréttir

Sunna Rannveig Evrópumeistari
Sunna Rannveig Davíðsdóttir bar sigur úr býtum á Evrópumeistaramóti áhugamanna í MMA.

Bjarki Þór Evrópumeistari
Bjarki Þór Pálsson var rétt í þessu að verða Evrópumeistari í MMA. Bjarki sigraði Búlgara eftir einróma dómaraákvörðun.