„Þetta er í fjórða skiptið sem ég stend fyrir þessum, hálfgerða gjörningi, og þetta hefur alltaf verið ofboðslega skemmtilegt,“ bendir Ívar Pétur á, en Ívar Pétur undir áhrifum fer fram á Kaffibarnum, þar sem hann tekur á móti listafólki úr öllum áttum sem hafa haft á hann áhrif í hans eigin sköpun.
Ívar Pétur segir afar auðvelt að fá listamenn til að samþykkja að eyða með honum kvöldstund, en hins vegar sé það þrautin þyngri að finna tíma.
„Það eru allir til í að vera með, og oftar en ekki enda ég með langan lista af fólki sem langar að koma næst,“ segir hann og skellir upp úr.
„Í kvöld verður Kristján Freyr Halldórsson með mér, einn þessara stóru á bak við hátíðina Aldrei fór ég suður. Við eigum saman þetta landsbyggðarelement, en ég kem frá Seyðisfirði og hann frá Ísafirði. Hann hlustaði á Bloody Valentine í fyrirpartíunum og fór svo á ball með Nýdanskri, rétt eins og þetta var hjá mér. Maður hafði ekki úr öllum þessum tónleikastöðum að velja líkt og þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu,“ útskýrir Ívar og skýtur að: „Maður lét sér bara Sálina hans Jóns míns nægja, og við erum sammála um að maður er þakklátur fyrir þann bakgrunn.“
Ívar Pétur býður alla hjartanlega velkomna á Kaffibarinn í kvöld, þar sem hann mun skemmta sér og öðrum. Aðgangur er ókeypis, sem sennilega dregur ekki úr stemningunni.