Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, hefur varað frönsku þjóðina við að hryðjuverkahópar gætu gripið til efnavopnaárása í landinu. Franskir þingmenn hafa verið að ræða hryðjuverkaárásir föstudagsins í morgun.
Valls hélt ræðu á franska þinginu í morgun þar sem þingmenn munu greiða atkvæði um hvort neyðarástandi í landinu verði framlengt um þrjá mánuði.
Í frétt BBC kemur fram að lögregla í Belgíu hafi gert húsleit á sex stöðum í og í kringum Brussel sem tengjast þeim Bilal Hadfi og Salah Abdeslam sem áttu þátt í árásum föstudagsins.
Réttarlæknar vinna nú hörðum höndum að því að ákvarða hvort höfuðpaur árásanna, Abdel-Hamid Abu Oud, hafi fallið í áhlaupi lögreglu á íbúð í St-Denis í gærmorgun.
Þá hefur Le Monde greint frá því að ríkislögreglustjóri Frakklands vilji heimila lögreglumönnum sem ekki eru á vakt að bera vopn. Slík heimild yrði þó einungis veitt á meðan yfirlýst neyðarástand stendur yfir.
Hryðjuverkin í París: Valls segir hættu á efnavopnaárás hryðjuverkamanna
Atli ísleifsson skrifar
