Fótbolti

Markahæsti leikmaður Evrópu er frá Gabon: „Langar að verða eins og Ronaldo og Messi“

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Pierre-Emeric Aubameyang, framherji Dortmund í þýsku 1. deildinni í fótbolta, er heldur betur í stuði á þessari leiktíð.

Þessi 26 ára gamli gabonski landsliðsmaður hefur bætt sig mikið fyrir framan markið og er búinn að skora þrettán mörk í ellefu leikjum í deildinni.

Hann er búinn að skora í heildina 20 mörk í öllum keppnum á þessari leiktíð fyrir Dortmund og er markahæsti leikmaður álfunnar, þremur mörkum á undan Robert Lewandowski hjá Bayern München.

Gullskór Evrópu hefur verið meira og minna í eign Cristiano Ronaldo og Lionel Messi undanfarin ár, en Aubameyang er nú sjö mörkum á undan Ronaldo.

„Mig langar mikið að afreka það sama og þeir og vera einn sá besti. Ronaldo og Messi skora stundum þrjú mörk í einum leik og svo fjögur í þeim næsta,“ segir Aubameyang í viðtali við Telefoot.

Gabonmaðurinn áttar sig á því að varnarmenn fara að láta hann hafa meira fyrir hlutunum haldi hann áfram að raða inn mörkunum.

„Auðvitað fara varnarmennirnir að vita meira af manni. Þeir sem héldu að Aubameyang væri bara leikmaður sem gæti hlaupið hratt höfðu rangt fyrir sér. Ég var fæddur í þetta og hef alltaf sett mér markmið,“ segir Pierre-Emeric Aubameyang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×