Róbert Örn Óskarsson, markvörður Íslandsmeistara FH, er genginn í raðir Víkings. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við Fossvogsfélagið í hádeginu.
Róbert Örn hefur spilað með uppeldisfélagi sínu FH síðan 2012 og verið aðalmarkvörður þess síðan 2013. Hann vann silfrið með liðinu í Pepsi-deildinni í fyrra og varð Íslandsmeistari í ár.
Þessi 28 ára gamli markvörður hefur legið undir feld síðustu daga eftir að FH-ingar sömdu við færeyska landsliðsmarkvörðinn Gunnar Nielsen sem kom í Hafnarfjörðinn frá Stjörnunni.
Eins og Vísir greindi frá voru, auk Víkings, Fylkir, Fjölnir og ÍBV á eftir honum. Þá vildi FH einnig semja aftur við Róbert sem rann út á samningi í lok október.
Róbert hitti FH-inga á fundi í Kaplakrika í gær en tók þá ákvörðun að ganga í raðir Víkings. Hann hefur áður verið á mála hjá Víkingi, en sumarið 2011 gekk hann í raðir Fossvogsfélagsins áður en hann var svo lánaður til ÍR.
Víkingar munu nú örugglega losa sig við danska markvörðinn Thomas Nielsen sem varði mark liðsins í sumar. Hann er farinn til síns heima, en sagði í viðtali við Vísi í síðustu viku að hann langaði að koma aftur.
Víkingar höfnuðu í níunda sæti Pepsi-deildarinnar á síðustu leiktíð eftir að gera stórvel sem nýliðar í fyrra og komast þá í Evrópukeppni í fyrsta sinn í 23 ár.
