Annar báturinn sökk nærri grísku eyjunni Kalymnos í Eyjahafi. Fjögur strandgæsluskip, þyrla og þrír aðrir bátar tóku þátt í björgunaraðgerðunum. Alls var 138 bjargað þegar báturinn sökk en 19 drukknuðu.
Báturinn var gerður úr tré og sökk eftir að hann fékk á sig brotsjó. Skömmu áður drukknuðu þrír nærri eyjunni Ródos þegar annar bátur sökk. Sex var bjargað en þriggja er enn saknað. Alls hafa um 50 manns látist á svæðinu undanfarna daga en á miðvikudaginn sökk bátur nærri eyjunni Lesbos. Grísk yfirvöld hafa hækkað tölu látinna í 16 en sögðu að 274 hefði verið bjargað.
Gríska eyjan Lesbos hefur borið hitann og þungan af straumi flóttamanna yfir Miðjarðarhafið til Grikklands frá átakasvæðum í mið-Austurlöndum. Alls hafa 300.000 flóttamenn komið til eyjunnar á árinu, þar af þriðjungur eingöngu í október.