Erlend kortavelta hefur aukist gífurlega hér á landi á síðustu árum. Sé veltan í septembermánuðum síðustu fjögurra ára sést að hún hefur aukist um 122 prósent. Síðasta september var hún 13,7 milljarðar króna, sem var 4,3 milljörðum hærra en í sama mánuði í fyrra.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.
Alls greiddu erlendir ferðamenn um þrjá milljarða fyrir gistingu í mánuðinum, sem er aukning um 51 prósent á milli ára. Þar að auki jókst erlend kortavelta hjá innlendum ferðaskipuleggjendum um 94 prósent á milli ára. Sú velta nam tæpum 2,5 milljörðum króna.
Samkvæmt Rannsóknarsetrinu bendir þessi þróun á að enn teygist á ferðatímabilinu, sem var að meginhluta til yfir sumarmánuðina þrjá fyrir einungis nokkrum árum.
Þá vörðu ferðamenn hæstum upphæðum í fatnað í verslunum í september. Yfir sumarið virðist sem að ferðamenn eyði mestu í dagvöruverslunum, en svo virðist sem að fatnaðurinn nái yfirhöndinni þegar taki að hausta.
Mikil aukning hefur eining verið á erlendri kortaveltu í minjagripaverslunum. Hún var alls 326 milljónir króna í mánuðinum og hefur aukist um 68 prósent á milli ára.
