Fótbolti

Sextán ára strákur í marki AC Milan í gær | Setti met

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianluigi Donnarumma í leiknum í gær.
Gianluigi Donnarumma í leiknum í gær. Vísir/Getty
Sinisa Mihajlovic, þjálfari AC Milan, tók þá ákvörðun í gær að láta Gianluigi Donnarumma byrja í marki liðsins um helgina. Það væri svo sem ekkert sérstakt fréttaefni nema af því að Donnarumma er fæddur árið 1999.

Gianluigi Donnarumma setti nýtt met í Seríu A með því að vera yngsti markvörðurinn sem byrjar leik í deildinni en hann var nákvæmlega 16 ára og 242 daga gamall.

Gianluigi Donnarumma er fæddur 25. febrúar 1999 og er markvörður sautján ára landsliðs Ítala. Hann kom til félagsins fyrir tveimur árum en var tekinn inn í æfingahóp aðalliðsins í sumar.

Donnarumma er eins og áður sagði fæddur árið 1999 en hann minnir alla á þá mögnuðu staðreynd með því að spila í treyju númer 99.

Sinisa Mihajlovic ákvað að velja Donnarumma í liðið frekar en Diego López eftir að AC Milan hafði ekki unnið þrjá leiki í röð. Diego López er 33 ára gamall, sautján árum eldri en Donnarumma.

Gianluigi Donnarumma náði ekki að halda hreinu en AC Milan vann 2-1 sigur á Sassuolo.

Gianluigi Donnarumma er annar yngsti leikmaður AC Milan frá upphafi en hann náði ekki að bæta félagsmet Paolo Maldini sem var aðeins 16 ára og 208 daga gamall þegar hann lék sinn fyrsta leik í Seríu A 20. janúar 1985.

Diego López var búinn að fá á sig fjórtán mörk í fyrstu átta leikjum og var ekki búinn að halda einu sinni hreinu á tímabilinu. AC Milan fékk aðeins eitt stig í þremur síðustu leikjum hans og López sótti boltann sex sinnum í markið sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×