Lokaumferðin í riðlunum í undankeppni Evrópumótsins í Frakklandi næsta sumar hefst í dag en undanfarna þrjá daga hafa sjö þjóðir tryggt sér farseðilinn í úrslitakeppni EM næsta sumar. Helmingur sætanna er því enn laus.
Ítalía, Belgía og Wales tryggðu sig áfram í gærkvöldi, Spánn og Sviss innsigliðu EM-sætið á föstudagskvöldið og á fimmtudaginn voru það Norður-Írland og Portúgal sem fengu EM-farseðilinn í hendurnar.
Íslenska fótboltalandsliðið tryggði sér EM-sætið 6. september og var fjórða þjóðin til að komast á EM á eftir gestgjöfum Frakka, Englandi og Tékklandi. Tveimur dögum síðar bættust Austurríkismenn síðan í EM-hópinn.
Það eru enn tólf sæti laus á Evrópumótið og það ræðst á næstu þremur dögum hvaða þjóðir hreppa átta þeirra. Fjögur síðustu sætin eru síðan í boði í umspili milli liða sem enduðu í þriðja sætinu í sínum riðlum.
Í kvöld verður keppt í riðlum D, F og I en í þessum þremur riðlum eru enn laus fjögur sæti. Fjórar þjóðir munu því tryggja sér sæti á Evrópumótinu í dag þar af tvær þjóðir úr D-riðlinum.
Þjóðverjar ættu að eiga greiða leið inn á EM en aðeins tap hjá þeim á heimavelli á móti Georgíu á sama tíma og það verður jafntefli milli Póllands og Írlands sér til þess að þeir endi ekki í tveimur efstu sætum riðilsins.
Fari þetta á versta veg fyrir Heimsmeistara Þjóðverjar verða öll þrjú efstu liðin jöfn að stigum en þeir sitja eftir á lakasta árangrinum í innbyrðisleikjum liðanna þriggja.
Stórleikur dagsins í D-riðlinum er án vafa úrslitaleikur Póllands og Írland í Varsjá þar sem 0-0 eða 1-1 jafntefli dugar Póllandi. Írar unnu Þjóðverja í síðasta leik og eru til alls vísir í kvöld.
Rúmenar og Ungverjar keppa um að fylgja Norður-Írum upp úr F-riðli en Rúmenar hafa stigi meira fyrir lokaumferðina. Von Ungverja liggur í Færeyjum en ef Rúmenar tapa stigum í Þórshöfn þá komast Ungverjar á EM með sigri í Grikklandi.
Portúgalar hafa tryggt sigur sigur í I-riðli og sæti á EM en Danir þurfa að treysta á það að Albanir tapi stigum í Armeníu í dag. Danir hafa lokið keppni en eru með eins stigs forskot á Albana og betri stöðu úr innbyrðisviðureignum.
Leikirnir í riðlum F og I fara fram klukkan 16.00 í dag en leikirnir í D-riðlinum verða klukkan 18.45 í kvöld.
Þjóðirnar tólf sem hafa tryggt sér sæti á EM 2016:
1. Frakkland (Gestgjafi)
2. England (5. september)
3. Tékkland (6. september)
4. Ísland (6. september)
5. Austurríki (8. september)
6. Norður-Írland (8. október)
7. Portúgal (8. október)
8. Spánn (9. október)
9. Sviss (9. október)
10. Ítalía (10. október)
11. Belgía (10. október)
12. Wales (10. október)
