Innlent

Tæplega 8000 Íslendingar krefjast hælis fyrir Telati fjölskylduna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Illugi Jökulsson blés til söfnunarinnar í gær.
Illugi Jökulsson blés til söfnunarinnar í gær. Vísir/Vilhelm
Nú þegar liðlega sólarhringur er liðinn síðan að undirskriftasöfnuninni „Leyfum albönsku Telati fjölskyldunni að setjast að á Íslandi“ var ýtt úr vör hafa um 7600 manns skrifað undir.

Telati fjölskyldan er orðin Íslendingum góðkunn en raunir hennar rötuðu fyrst í fjölmiðla þann 30. september síðastliðinn. Þá greindi Vísir frá því að systkinin Laura, Janie og Petrit fengju ekki að ganga í skóla sem þau þó sáu út um gluggann á tómri stofunni í íbúð þeirra í Laugardal.

Því máli lauk með besta móti og hafa börnin nú stundað skólana í Laugarneshverfinu síðustu tvær vikur. Þau eru öll þrjú ánægð í skólanum og hafa kynnst mörgum vinum.

R
ætt var við fjölskylduna og nágranna þeirra í ljósi tíðinda föstudagsins í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Fréttina má sjá hér að neðan.





Foreldrar þeirra, Hasan og Alketa, höfðu þá sótt um hæli á Íslandi og biðu viðbragða. Svarið barst svo loks á föstudag, beiðni þeirra var synjað og þeim gert að halda aftur til Albaníu.

Mikil reiði braust út í kjölfar þessara tíðinda, reiði og sorg og það má glögglega sjá ef skautað var yfir samfélagsmiðilinn Facebook. Vísir tók saman dæmi sem fráleitt eru tæmandi um þau orð sem látin voru falla vegna þessarar niðurstöðu, sem fólk átti afar erfitt með að sætta sig við. 

Sjá einnig: Mikil reiði og sorg vegna niðurstöðu Útlendingastofnunar

Út um stofugluggann sjá þau (f.v.) Janie, Petrit og Laura skóla hverfisins.Vísir/Vilhelm
Fjölmargir hafa boðist til að aðstoða fjölskylduna með einum eða öðrum hætti. Það gerði til að mynda Sólveig Eiríksdóttir, kennd við veitingastaðinn Gló, í dag þegar hún bauð þeim Hasan og Alketa starf á veitingastaðnum.

„Þetta er alveg harðduglegt og fallegt fólk sem á ekki afturkvæmt til Albaníu. Þó það sé ekki stríð þar þá geta verið ýmsir aðrir hlutir sem gera það að verkum að þú verðir að yfirgefa heimili þitt. Ég er tilbúinn að aðstoða þau með ýmislegt og ég hef klárlega vinnu fyrir þau hjá mér, “ sagði Sólveig, Solla, af því tilefni.

Sjá einnig: Tilbúin að bjóða Albönunum vinnu á Gló

Rithöfundurinn Illugi Jökulsson stendur fyrir undirskriftalistanum „Leyfum albönsku Telati fjölskyldunni að setjast að á Íslandi.“ Við listann skrifar Illugi: 

Við undirrituð botnum ekki í því af hverju hinni fimm manna Telati fjölskyldu frá Albaníu er ekki leyft að setjast hér að. Við krefjumst þess að Útlendingastofnun breyti hið bráðasta þeirri ákvörðun að vísa fjölskyldunni úr landi.

Fjölskyldan frá Albaníu eru hjón með þrjú börn, níu, þrettán og fimmtán ára. Þau vilja setjast hér að til frambúðar, börnin vilja ganga í skóla og hjónin vilja vinna fyrir sér. Við sjáum nákvæmlega ekkert því til fyrirstöðu að óskir þeirra séu uppfylltar.

Ef þessari fjölskyldu væri vísað úr landi yrði það skammarlegur blettur á okkur og samfélagi okkar. Leyfum þeim að búa hér ef þau vilja, eins og við viljum fá að búa í friði þar sem við kjósum.


Tengdar fréttir

Fjölskyldan fékk synjun um hæli

Albönsk fjölskylda þarf að fara úr landi sem fyrst. Börnin eru nýbyrjuð í skóla í Laugarneshverfinu og eru alsæl. Foreldrarnir segjast ekki þurfa fjárhagsaðstoð, bara leyfi til að vinna og búa á Íslandi.

Albönsku börnin komin í skóla: Mikil gleði fyrsta skóladaginn

Faðir þriggja albanskra barna, sem hingað til hafa ekki fengið skólavist í íslenskum grunnskólum, segir daginn í dag afar ánægjulegan, en í morgun byrjuðu börn hans loksins í skólanum. Yngsti sonur hans segir skemmtilegast að læra stærfræði og leika sér við aðra krakka.

Skólastjóri Laugalækjarskóla býður systurnar Lauru og Janie velkomnar

Útlendingastofnun hefur haft samband við Laugalækjarskóla og Laugarnesskóla og beðið um skólavist fyrir systkinin, Lauru, Janie og Petrit. Björn M. Björgvinsson skólastjóri Laugalækjarskóla staðfestir þetta. "Þær eru búnar að fá skólavist, það á aðeins eftir að ganga frá nokkrum formsatriðum, við þurfum örfáa daga til þess að undirbúa þær fyrir skólann,“ segir hann og segir skólann munu taka vel á móti þeim.

Börn hælisleitenda fá ekki skólavist

Þau Laura fimmtán ára, Janie þrettán ára og Petrit níu ára komu til Íslands í byrjun júní. Þau spyrja foreldra sína daglega hvenær þau fái að fara í skóla. Útlendingastofnun sótti ekki um skólavist fyrir systkinin þrátt fyrir ítrekaðar áminningar foreldra barnanna, lögfræðinga og umboðsmanns barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×