Dagskráin fyrir Iceland Airwaves-tónlistarhátíðina var kynnt í dag. Þetta er í 17. sinn sem hátíðin er haldin en hún fer fram dagana 4.-8. nóvember.
Um 240 listamenn koma fram á hátíðinni í ár á um 13 tónleikastöðum í miðborginni. Af þeim sem stíga á stokk eru 72 erlendar sveitir.
Á meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni eru John Grant, Hot Chip, Ariel Pink, Úlfur Úlfur og GusGus. Nánari upplýsingar um þá tónlistarmenn sem troða upp má nálgast hér og dagskrána sjálfa á PDF formi er að finna hér.
Miðasala er enn í fullum gangi en stutt er í að það seljist upp svo skipuleggjendur hátíðarinnar hvetja áhugasama til að tryggja sér miða í tæka tíð.
