Björn skrifar harðorða grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann telur ferðaþjónustuna taktlausa hvað þetta varðar. „Ferðaþjónustan getur hreinlega ekki verið þekkt fyrir að gera út á íslenska náttúru sem er í eigu fólksins í landinu og brjóta á sama tíma umsamin réttindi ungs fólks,“ segir í greininni.
„Við leggjum mikið upp úr því að fyrirtæki innan okkar samtaka virði gerða kjarasamninga og þekkjum ekki dæmi um að brotið sé á starfsfólki innan okkar raða,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. „Fyrirtæki í ferðaþjónustu eru hins vegar mörg hér á landi og er ólíðandi ef einhver þeirra virða ekki gildandi kjarasamninga. Þá er varhugavert er að alhæfa um að slíkt viðgangist almennt í greininni.“

Ferðaþjónustan hefur verið í miklum vexti og Eining-Iðja hefur þurft að hafa afskipti af fjölda mála. „Við sendum út auglýsingar og bæklinga til starfsfólks hvernig launaseðlarnir þeirra eiga að líta út og það hefur haft góð áhrif og okkur hefur borist fjöldi fyrirspurna í kjölfarið. Einnig verður starfsfólk að vera duglegra að lesa launaseðla sína og vera vakandi.“