Enski boltinn

Zlatan: Ronaldo fékk allt lofið hjá United en Rooney vann alla vinnuna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wayne Rooney og Ronaldo fagna marki í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2008.
Wayne Rooney og Ronaldo fagna marki í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2008. vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic, framherji Paris Saint-Germain, sendir Cristiano Ronaldo sæmilega pillu í viðtali við BBC, en Zlatan og Ronaldo eiga eftir að mætast tvívegis í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Zlatan segir að Cristiano Ronaldo hafi fengið of mikið hrós fyrir frammistöðu sína hjá Manchester United, en í raun hafi það verið Wayne Rooney sem var á bakvið árangur liðsins.

Ronaldo og Rooney urðu Englandsmeistarar saman þrjú ár í röð frá 2007-2009 og árið 2008 vann liðið einnig Meistaradeildina.

„Þessir frábæru leikmenn eiga sína stundir yfir eitt til þrjú ár, en að geta haldið stöðugleika í fimm til tíu ár eins og Wayne Rooney hefur gert er ekki auðvelt. Það er pressa á hverjum degi að spila fyrir stórt félag,“ segir Zlatan í viðtali við BBC.

„Rooney hleypur mikið, berst mikið og fórnar miklu. Þegar hann spilaði með Cristiano Ronaldo vann Rooney alla vinnuna en fékk ekkert lof því Ronaldo skoraði öll mörkin.“

„Ég myndi samt frekar vilja spila með Ronaldo en á móti honum. Ég hef ekki verið svo heppinn að spila með honum en ég nýt þess að sjá hann á vellinum,“ segir Zlatan Ibrahimovic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×