450 milljónir króna verða settar á fjáraukalög og milljarður á næsta ári vegna móttöku flóttafólks, samkvæmt heimildum Vísis.
Aukaríkisstjórnarfundur stendur nú yfir þar sem málefni flóttamanna eru meðal annars rædd. Búist er við að ríkisstjórnin kynni niðurstöður sínar varðandi mótttöku flóttafólks að fundi loknum.
Samkvæmt heimildum Vísis er einnig gert ráð fyrir að tugir ef ekki hundruð milljóna króna verði sendar til alþjóðlegra verkefna til að takast á við þann flóttamannavanda sem Evrópa stendur frammi fyrir.
Forsætisráðherra hefur boðað til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu klukkan 15. Á fundinum verða kynntar tillögur um málefni flóttamanna sem ráðherranefnd um málefni flóttamanna og innflytjenda hefur fjallað um að undanförnu.
