Tónlist

Hulduhljómsveitin KAJAK rennur niður fljót framtíðarinnar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hér má sjá þá Hrein og Sigurmon.
Hér má sjá þá Hrein og Sigurmon.
Hulduhljómsveitin KAJAK gefur út nýtt lag og sína fyrstu opinberu útgáfu frá upphafi. Lagið heitir Wake Up og er upbeat og hressandi frumbyggja raf í stíl við fyrri tóna. Þetta er síðasta lagið á fyrstu útgáfu sveitarinnar Children Of The Sun sem einnig inniheldur lögin Gold Crowned Eagle og Indiana sem hafa átt góðu gengi að fagna á útvarpsstöðvum landsins.

„Tónlistin okkar verður til í öldum. Við semjum 10-20 hugmyndir á stuttum tíma með ákveðinn innblástur að leiðarljósi, það sem okkur finnst áhugavert hverju sinni,“ segir Hreinn Elíasson, einn af hljómsveitarmeðlimum bandsins.

„Úr þessu ferli standa oftast 3-4 lög uppúr. Við nennum ekkert að eyða tímanum í uppfyllingarefni. Þá datt okkur snjallræði í hug. Áætlun okkar er að gefa út 3 laga stuttskífur með reglulegu millibili, rúmlega 4 skífur á ári. Við ætlum að hrista upp í útgáfuhefðinni, með því höldum við hlutunum spennandi og ferskum, fyrir okkur sjálfum og öðrum,“ segir Sigurmon Hartmann Sigurðsson, annar hljómsveitameðlimur.

Þeir hafa verið iðnir við að semja kvikmyndatónlist að undanförnu og tóku þátt í að framleiða tónlist fyrir fyrstu 4K mynd sem gerð hefur verið hér á Íslandi.

„Við erum búnir að vinna í mörgum góðum verkefnum að undanförnu. Gerðum til að mynda tónlist fyrir Norðurljósabíómynd, Iceland Aurora, og önnur verkefni á Íslandi til þess að geta fjármagnað hljóðverin okkar og græjað okkur upp - næst stefnum við á að leita líka út fyrir landssteinana fyrir þannig verkefni," segir Hreinn.

„Við höfum bætt við okkur sjóðheitum trommara þannig að tónleikaröð okkar er orðið enn ferskara og stærri upplifun. Okkur hlakkar bara til að fara að spila nýja tónlist fyrir fólkið á eyjunni, það er svo skemmtilegt og gefandi. Tíminn er kominn til að láta Kajakinn renna niður fljót framtíðarinnar,“ segir Sigurmon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×