Tónlist

Tveggja og hálfs árs tónleikaferð lýkur í kvöld

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti er nú á leið heim eftir tveggja og hálfs árs tónleikaferð og ætlar að einbeita sér hundrað prósent að nýrri plötu. Gert er ráð fyrir að nýja platan komi út á næsta ári.
Tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti er nú á leið heim eftir tveggja og hálfs árs tónleikaferð og ætlar að einbeita sér hundrað prósent að nýrri plötu. Gert er ráð fyrir að nýja platan komi út á næsta ári. Mynd/Getty
Tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti leikur á sínum síðustu tónleikum á tónleikaferð sinni, í Tromsø í Noregi í kvöld. Um er að ræða ansi stóra og umfangsmikla tónleikaferð sem hefur staðið yfir með pásum í um tvö og hálft ár. „Þetta fór fram úr okkar björtustu vonum, platan fór af stað erlendis mun fyrr en við ætluðum í upphafi. Af því að hún hefur verið að koma út á mismunandi tíma á mismunandi mörkuðum, þá er þetta orðið svona langur tíma. Það eru allir orðnir mjög spenntir fyrir næstu plötu og það verður spennandi að geta gefið út næstu plötu alls staðar, á öllum mörkuðum, á sama tíma,“ segir María Rut Reynisdóttir umboðsmaður Ásgeirs.

Allt í allt eru tónleikarnir á tónleikaferðinni 324 talsins og flestir fóru fram erlendis. „Árið 2013 kom Ásgeir fram á 55 tónleikum erlendis en árið 2014 spilaði hann á 113 tónleikum erlendis og einu tónleikarnir hans á Íslandi það ár voru á Airwaves. Á þessu ári hefur hann komið fram á 41 tónleikum og voru þeir allir erlendis nema tvennir tónleikar í Hörpu hér heima,“ segir María Rut um ferðlagið. Hún segist ómögulega geta sagt hve margir tónleikagestirnir voru í heild. „Það hef ég því miður ekki og get ómögulega kastað á það tölu en það eruð hundruð þúsunda ef ekki einhverjar milljónir,“ bætir hún við og hlær.

Ásgeir og félagar héldu af stað árið 2012 og hafa farið um heim allan í ferð sinni en lokahnykkurinn, sem var jafnframt stysti hluti tónleikaferðarinnar kláraðist um helgina. „Á þessum lokatúr tónleikaferðarinnar geri ég ráð fyrir að rétt rúmlega 32 þúsund manns hafi séð Ásgeir, á þessu heldur stutta tólf daga tónleikaferðalagi. Þeir eru vanir að túra í þrjár til fimm vikur í senn en eru allir sammála um að þetta hafi verið frábær endir á þeim tveimur og hálfu ári sem þeir hafa varið í að fylgja plötunni Dýrð í dauðaþögn eftir um allan heim,“ útskýrir María Rut.

Í sinni síðustu ferð spilaði Ásgeir með listamönnum á borð Tom Odell og hljómsveitum á borð við Interpol og Fatboy Slim. Þá hittu Ásgeir og félagar hljómsveitina alt-J í Zürich í vikunni en Ásgeir túraði með alt-J í Ástralíu í maí. Þá túraði hann einnig með Hozier í febrúar um Bandaríkin. Árið 2013 túraði hann með Of Monsters and Men og John Grant.

Ný plata á næsta ári

Framundan hjá Ásgeiri er algjört hlé frá tónleikahaldi og hundrað prósent fókus á nýja plötu. „Við áætlum að nýja platan komi út um mitt næsta ár, jafnvel fyrr. Meira verður ekki sagt um nýju plötuna í bili en Ásgeir og Kiddi upptökustjóri (Guðmundur Kristinn Jónsson) hafa verið við upptökur í Hljóðrita í Hafnarfirði og verða næstu mánuði.“

Um þrjú ár eru síðan fyrsta plata Ásgeirs, Dýrð í dauðaþögn, kom út á Íslandi. Platan hlaut frábæra dóma og naut mikilla vinsælda og varð fljótlega mest selda frumraun allra tíma hér á landi. Stuttu eftir útgáfu plötunnar skrifaði Ásgeir undir samning við útgáfufyrirtækið One Little Indian í Bretlandi um alþjóðlega útgáfu plötunnar á ensku. Platan kom út í Evrópu í janúar 2014 og stuttu síðar Ástralíu og Japan og í mars sama ár skrifaði Ásgeir undir samning við Columbia Records um útgáfu plötunnar í Bandaríkjunum.

Platan fór í fyrsta sæti á Next Big Sound lista Billboard þegar hún kom út í Bandaríkjunum og komst á Topp 10 lista iTunes yfir mest seldu plöturnar víða, m.a. í Bretlandi, Frakklandi, Japan, á Írlandi, Ítalíu, í Hollandi og á Spáni. Hér heima hlaut Ásgeir fern verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum 2012 og í desember sama ár var hann tilnefndur til Norrænu tónlistarverðlaunanna (Nordic Music Prize). Í janúar 2014 var Ásgeir svo einn af handhöfum European Border Breaker Awards sem voru afhent á Eurosonic-tónlistarhátíðinni í Groningen í Hollandi.

Gagnrýnendur hafa verið iðnir við að lofa Ásgeir og plötuna og má þar nefna National Public Radio í Bandríkjunum (NPR), TIME, Guardian, Vogue, NME og fleiri. Vefsíðan The Line of Best Fit valdi In the Silence á topp 50 lista yfir bestu plötur ársins 2014 og hið sama gerði Rough Trade. Platan var jafnframt valin besta alþjóðlega platan 2014 af GAFFA í Noregi og í Bandaríkjunum valdi einn virtasti útvarpsmaður þar í landi, Bob Boilen, In the Silence sem eina af bestu plötum ársins auk þess sem Amazon valdi Ásgeir sem einn af þeim listamönnum / hljómsveitum sem fólk ætti að fylgjast með árið 2015 (Artists to Watch in 2015). Ásgeir hefur átt miklum vinsældum að fagna í Japan og Ástralíu og í Ástralíu kusu hlustendur Triple J útvarpsstöðvarinnar, sem heyrir undir ABC, King and Cross sem tíunda besta lag ársins 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×